mánudagur, maí 22, 2006

FFKÉKFFF

Það sem hefur drifið á daga okkar síðan síðast

-fórum í þrjú afmæli
-fékk bréf frá skattinum í USA og þarf að borga $21 í skatt
-keyptum Nissan Sentra,2002 árgerð, gull/silfraðan fjölskyldubíl
-ég sólbrann á öxlum og hnjám
-kláruðum íslenska nammið okkar
-fékk lánað selló fyrir sumarið hjá japanska vini okkar Kenji. Ágætt að hafa eitthvað annað fyrir stafni en að vinna, prjóna við sundlaugarbakkann og fara á ströndina
-fengum lánað hús í sumar í Westwood, risastórt með góðum garði fyrir grill (tilvísun í komment Hannesar: Já og með konu sem þrífur, manni sem tekur til í garðinum og öryggisvörðum sem vakta húsið á nokkra tíma fresti-m.ö.o. frekar flott)
-fórum á Madonnutónleika. Vá, flottasta sýning sem ég hef séð og Hannes var dolfallinn. Hvet alla sem hafa tök á að sjá túrinn að skella sér. Hannesi langaði strax að fara aftur en ég held aðallega að því að hann varð svo skotin í Madonnu.

-Gerður

föstudagur, maí 12, 2006

Mannanöfn

Það má víst skýra barn sitt Bambi en sem betur fer hefur Mannanafnanefnd hafnað nafninu Engifer.

Mannanafnaskrá Dómsmálaráðuneytisins er skemmtileg lesning:
http://www.rettarheimild.is/mannanofn

-HH

fimmtudagur, maí 11, 2006

Að baka dapra

"Abakadapa, abakradaba, abak... , adaprabaka, að baka dapra...."

Ekki vissi ég þetta en Gerður virðist eiga mjög erfitt með að fara með hina fornu töfraþulu abrakadabra. Þetta hjónaband kemur stöðugt á óvart... að sjálfsögðu á góðan hátt.

Tók hana í smá þjálfun og nú er hún búin að ná þessu ansi vel og hleypur um íbúðina með sleif sem töfrasprota sveipuð gulu strandhandklæði.

-HP

Heimildamynd um Frank O. Gehry

Það mætti halda að ég væri á prósentum hjá herra Gehry því þetta er líklegast í þriðja skiptið sem ég skrifa eitthvað um hann. Rétt í þessu var ég að komast að því að Sidney Pollack er búinn að gera heimildamynd um þennan stórskemmtilega arkitekt. Reyndar er myndin frá síðasta ári svo þetta eru ef til vill ekki nýjar fréttir fyrir aðra en mig. Vona svo sannarlega að við skötuhjúin fáum tækifæri til þess að sjá myndina hér í borg glyssins. Geri ráð fyrir að Laemmle's Playhouse 7, artí-bíóhús í göngufjarlægð, bregðist okkur ekki frekar en fyrri daginn.

-HH

PS fyrir Gerði, Vigni bróður og aðra áhugasama: Trailer fyrir Sketches of Frank Gehry

mánudagur, maí 08, 2006

Stutt kveðjuför... en kem fljótt aftur

Þá er ég kominn aftur til Kalíforníu eftir stutta heimsókn til Íslands til þess að kveðja afa minn. Lenti að morgni fimmtudags í Keflavík og flaug síðan þaðan aftur um miðjan sunnudag -- búinn að eyða samtals tæpum 30 klukkustundum á ferðalagi fram og til baka. Þetta var meira en þess virði og nauðsynlegt að vera með fjölskyldu sinni á svona stundum. Mikið var gaman að hitta alla og sérstaklega þau sem búa í Noregi þótt að aðstæður hefðu getað verið ákjósanlegri. Við Gerður höfum ákveðið að heimsækja þau og æskuslóðir afa Gerðar í Harðangursfirði innan fimm ára svo ef einhver ykkar Noregsbúa les þetta skuluð þið endilega minna okkur á þetta loforð!

Annars er stutt í að við komum aftur til Íslands eða rúmar þrjár vikur. Óskum eftir boðum í ísbíltúra og sundferðir.

-HH

laugardagur, maí 06, 2006

Hvítir mávar...dada...

Þar sem ég bý syngja framandi fuglar fallega söngva á hverju kvöldi. Það er eins og borgarstjóri Pasadena sé að blasta einhverri nýaldartónlist en það er samt ekki raunin. Á hverju kvöldi er mér boðið á gylltar strendur og á hverjum morgni er ég vakin upp við bílanið og öskrandi þjófavarnarkerfi bílanna í grend. Helgin verður strembin og vinnusöm eins og vikan sem er að líða. Hannes er á Íslandi vegna skyndilegs fráfalls afa síns og nafna, Hannesar Helgasonar, en hann mun snúa til baka í páfagaukshljóminn annaðkvöld.
Á mánudaginn líkur önninni hjá mér sem þýðir að næstu vikum verður eytt í sundlauginni á milli þess sem ég stekk í vinnuna. Ég hlakka til.

-Gerður

miðvikudagur, maí 03, 2006

Í boði Lancome

Hvað gerir maður þegar maður er stressaður vegna tímaskorts á verkefni sem á að skilast á mánudaginn? Jú, maður fer í Macys og lætur förðunarfræðinga nudda á sér hendurnar með dýrindiskremum á meðan bandarískir yfirförðunarfræðingar Lancome þvo á manni húðina og farða síðan eftir nýjustu sumarlínu. Jú það var gaman í dag í Macys og er ég ekki frá því að það mun vera auðveldara að vinna verkefnið í kvöld. Hvar væri maður án nýju sumarlínunar? Fyrir þessa dýrindis þjónustu var maður samningsbundinn Lancome og þurfti að kaupa hjá þeim þrjár vörur. Ónei, þá var illt í efni. Keypti góð krem og maskara, hefði auðveldlega getað sleppt mér og keypt nýju línuna og eytt 20.000 kalli en sleppti því í þetta sinn því jú maður fer víst vel með peningana sem maður á ekki. Sem betur fer var afgreiðslukonan rússnesk og þekkti erfiða tíma, með sakleysislegu brosi mínu endaði hún með því að gefa mér 12 Lancome augnskugga ásamt fleiri hlutum. Á ögurstundum í ameríkunni er gott að hafa stór blá augu og hreim.

My personal look from Lancome-Paris:


-Gerður

mánudagur, maí 01, 2006

Sex trommarar, sól og steikjandi hiti

Helgin var sólrík og góð. Hófst á 8 tíma prófi hjá mér sem byrjaði kl.2 aðfaranótt laugardags og lauk kl. 10 á laugardagsmorgninum. Hefði þurft meiri tíma enda áttaði ég mig á því að heili minn er mun seinni til á nóttunni heldur en á daginn.
Laugardeginum eyddi ég síðan svefndrukkin í steikjandi hita og sól sem endaði síðan í dýrindis máltíð hjá vinum okkar sem buðu okkur í mat. Sunnudagurin var sá sami, sól og steikjandi hiti, hjólatúr, ísferð og matarboð hjá vinum. Nema án svefnleysis.

Það er gott að finna að sumarið er hafið hér í Kaliforníu. Ég er sólarstelpa.

En nóg um það. Hér er mynd sem allir ættu að sjá. Hún er sænsk, 15 mínútna löng og mjög kúl. Fyrir alla sem hafa áhuga á hárblásurum, saltstaukum og tónlist ættu að setjast niður og njóta. Farið inn á meðfylgjandi link og smellið síðan á linkinn watch film.

Tónlist fyrir eina íbúð og sex trommara

-Gerður