mánudagur, apríl 24, 2006

Ég er að verða neónappelsínuhærður!

Lá í sófanum með henni Gerði minni að hlusta á Love and Hate með Leonard Cohen þegar hún skyndilega hrópaði: "Ég fann neón-appelsínugult hár á höfðinu þínu!" Ef grá hár teljast ellimerki hvað er þá þetta?! Gerður kippti hárinu af höfði mínu og þegar ég bar það upp að ljósinu frá standlampanum fannst mér liturinn jafnvel jaðra við gull eða háglansandi brons.

-Hannes

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Framhjáhald

Geta systur haldið fram hjá hvor annarri? Kannski? Ef þær gera það, þá er allaveganna gott að gera slíkt hið sama svo biturleikinn verði ekki að óbærilegur.

Hildur systir hringi í mig um daginn og tilkynnti mér að hún hafi keypt miða á Madonnu tónleika í París í sumar. Vá ansi gott. Hún var samt eitthvað smeik og sagði mér að henni liði pínu eins og hún hafi haldið fram hjá okkur systrunum því hvað er meira stelpu- og systralegra en að skella sér til Parísar á Madonnu tónleika?
Hmm...allaveganna vissulega varð ég abbó að heyra af þessum undirlæðishætti systur minnar þannig að tveimur dögum síðar gerði ég slíkt hið sama. Settist fyrir framan tölvuna á sunnudagsmorgni og fjárfesti í 4 miðum á fyrstu tónleika hennar í heimstúrnum sem verða haldnir 21.maí næstkomandi hér í LA. Jíbbýkóla!!! Fannst það frábært þangað til að ég áttaði mig á því að ég þurfti bara einn miða en ekki fjóra. Ég hef allaveganna staðið mig mun betur í framhjáhaldinu heldur en hún systir mín-fjórfalt framhjáhald er mjög gott. Abbóboltinn er sendur yfir til hennar.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Vídjógláp

Ég heiti Hannes og ég er vídjófíkill. Í kuldanum hef ég leitt Gerði út í þessa vitleysu en með vorinu tek ég mér tak.

Við höfum verið heldur dugleg við að horfa á kvikmyndir síðustu vikurnar. Byrjuðum með áskrift hjá Netflix sem er DVD-leiga þar sem myndirnar eru sendar heim til þín í pósti. Sérhver notandi er með sitt svæði á heimasíðu Netflix þar sem hann getur valið myndir sem hann vill leigja og eru þær settar í röð sem má síðar breyta. Síðan sendir Netflix myndirnar í pósti, 1,2,3 eða fleiri (fer eftir tegund áskriftar) og þegar búið er að glápa á mynd er hægt að senda hana til baka í sama ófrímerkta umslagi og hún kom í. Um leið og Netflix fær myndina aftur sendir hún næstu mynd sem var valin. Við borgum 10 dollara á mánuði og megum vera með eina mynd í senn, svo með góðu móti getum við horft á 4 myndir í hverjum mánuði sem er miklu meira en nóg fyrir okkur. Við horfum annars ekkert á bandarískt sjónvarp, sem er fullt af rusli og auglýsingum, svo ég fæ aðeins minna samviskubit fyrir vikið.

Það gefst ekki mikill tími þessa dagana til þess að horfa á kvikmyndir svo við segjum örugglega upp áskriftinni fljótlega. Erum áskrifendur að The New Yorker og fengum ókeypis áskrift af Times svo það verður líka að gefast einhver tími til þess að lesa um heimsmálin.

Við erum orðnir miklir Hitchcock aðdáendur og mælum eindregið með "Rear Window" og "Dial M for Murder".

sunnudagur, apríl 16, 2006

Gleðilega páska...

Sit með 325 g af súkkulaði fyrir framan mig. Er hægt að vera annað en glöð.
Maður spyr sig af hverju páskarnir eru ekki á hverjum degi. Ég er enn ekki búin að átta mig á svarinu. Ég er hömlulaus í súkkulaðiáti og einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að ég vakni í fyrramálið dekkri á hörund en venjulega. Eins gott að sólin verði ekki sterk á morgun, mér er illa við að bráðna.

mánudagur, apríl 10, 2006

Stundum getur heimurinn verið of grimmur

Vinur minn sendi mér póst fyrir örfáum mínútum um saklausa ferðalanga sem týndust fyrir nokkrum mánuðum í Bólivíu. Kunningjar okkar Gerðar hér við skólann þekktu einnig þetta fólk persónulega og höfðum við fyrir einhverjum vikum fengið fréttir af þessu í gegnum tölvupóst frá skólayfirvöldum og vinum en þá var ekki vitað um afdrif þessa fólks.

Eftir lestur póstsins og heimsókn á heimasíðu sem sett hefur verið upp
vegna þessa máls vöknuðu ótal spurningar hjá mér. Sjaldan hefur saga snert mig jafn djúpt og minnt mig jafn mikið á að mínir nánustu skipta mig öllu máli í lífinu. Mér varð hugsað til alls fólksins sem ég þekki sem hafa farið í ævintýraferðir til framandi landa til þess að víkka sjóndeildarhringinn og síðar fræða samlanda sína og vini. Mannelskandi fólk líkt og þessir ferðalangar í Bólivíu.

Ég veit ekki afhverju ég er að skrifa um þetta á þessu bloggi okkar Gerðar en mér fannst ég vera tilneyddur að votta þessu fólki virðingu mína og um leið fá fjölskyldu mína og vini til þess að íhuga ástandið í latnesku Ameríku. Ef þið hafið áhuga að fræðast um þetta þá er slóðin á heimasíðuna þessi:
http://www.katharinaandpeter.info/index_eng.html

Þetta minnir okkur á hversu mikil forréttindi það eru að búa í samfélagi eins og á Íslandi.

-Hannes

laugardagur, apríl 08, 2006

Loksins

Dagurinn byrjaði vel vegna þess að loksins var knattspyrnuleik SOPS ekki frestað. Lékum í glampandi sólskini og þægilegum hita (ca. 20 gráður) og lauk leiknum með 2-1 sigri okkar á liði sem samanstóð mestmegnis af Könum. Reyndar missti ég illilega stjórn á skapi mínu rétt fyrir leikslok eftir að mótherji hafði stjakað við mér og síðar Guillaume að tilefnislausu. Guillaume gekk upp að honum og ýtti við honum og ég kom strax á eftir og ýtti einnig eitthvað á hann... kannski bara aðeins of fast, því þessi tæplega tveggja metra jaxl datt niður á jörðina og rúllaði. Síðan las ég yfir honum skammir á ensku og notaði víst ósmekklega orðið um karlkyns afkvæmi tíkar.

Ég hef ekki fundið fyrir jafn mikilli reiði síðan einhvern tímann í grunnskóla og sá nú mikið eftir þessu að leik loknum og baðst því innilega afsökunar. Samherjar mínir hafa líklegast aldrei séð mig missa stjórn á skapi mínu á þennan hátt og voru furðu lostnir. Sama gildir um fyrirliða mótherja okkar -ágætis félagi minn- sem kom til mín og spurði hvað hefði eiginlega gerst því þetta var algjörlega útúr karakter. Hann játaði líka að þessi maður sem ég hrinti væri þekktur fyrir fruntaskap og lenti iðulega í leiðindum í leikjum. En mér finnst það engin afsökun fyrir þessari hegðun minni. Það er spurning um að fara í jóga í næstu viku.

(Guillaume er líka einstakt ljúfmenni með ótrúlega stjórn á skapi sínu, svo það er heldur óvanalegt að sjá hann reiðast á þennan hátt.)

Kannski er bara ágætt að sleppa dýrinu lausu af og til svo lengi sem afleiðingarnar eru ekki of slæmar. Þetta sannar þó að ég hef enn skap og sver mig í móðurætt mína.

-Hannes

föstudagur, apríl 07, 2006

Tíundin

Jæja, þá erum við búin að skila inn skattaskýrslum og ef ég var vanur að kvarta undan slíkri kvöð á Íslandi þá er ég hérmeð hættur því. Þar sem við búum erlendis þurfum við að skila skýrslu til ríkisskattstjórans á Íslandi, skattsjóra Bandaríkjanna og skattstjóra Kalíforníufylkis. Þetta er sko ekkert grín því síðan þarf maður að sökkva sér í opinber skjöl til þess að komast að því hvort við útlensku hjónin megum skila sameiginlegu skattframtali og hverskonar form við eigum að fylla út. Til þess að gera þetta ennþá skemmtilegra gilda ekki sömu skattalög hjá ríkinu og fylkjunum, svo t.a.m. getum við ekki talist með búsetu í Bandaríkjunum (eða nánar: "U.S. residents for tax purposes"). En hinsvegar komumst við að því eftir lestur á FTB Publication 1031 að Kalíforníufylki tekur okkur opnum örmum og við getum kallað okkur "Californian residents". Þetta er svona svipað og eiga heimili á Selfossi en mega ekki segjast búa á Íslandi.

Hátt í 20 stiga hiti og glampandi sól. Kalífornía svíkur okkur ekki í dag.


-Hannes

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Hægri mjöðm, vinstri, snúa, upp, niður,snúa,snúa...

Hvenær tekur maður þátt í danssýningu ef maður gerir það ekki þegar maður er 26 ára?
Í janúar síðastliðinn hóf ég að nema magadans. Ekki í frásögu færandi nema hvað að nú um helgina föstudag, laugardag og sunnudag mun ég taka þátt í danssýningu þar sem snilldartaktar mínir verða opinberaðir. Hef fjárfest í dýrum búningi með öllu tilheyrandi eyrnalokkum, hárskrauti, peningabelti, risastóru pilsi, gullbróderuðum topp o.s.frv. Þetta er náttúrulega bara fyndið. Já ég mun dansa, ásamt 15 öðrum konum, þrjá dansa. Sígunadans, slæðudans og síðan klassískan magadans. Er ekki enn búin að gera það upp við mig hvort mér finnst þetta skemmtilegt en ég hef allaveganna komist að því að ég hef ekki brennandi ástríðu fyrir þessu. Jú ég held að mér finnist þetta alveg skemmtilegt.
Þetta mun verða tekið upp á DVD disk þannig að aðdáendur geta beðið mig um að sýna sér dýrðina eftir helgi. Segjum samt bara í júní þegar ég kem heim, ætla ekki að fara að setja þetta á netið-ónei, þar eru engin stefgjöld.

-Gerður

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Hið undarlega...

Fyrir u.þ.b. tveimur vikum var ég á vappinu í vinnunni minni þegar skyndilega lagið
Something's Gotten Hold Of My Heart heltók mig. Ástæðan er óútskýranleg, hef ekki heyrt þetta lag í mörg ár. Á mánudaginn var ég komin með nóg af þessu (þetta lag klingdi í hausnum mínum dag og nótt) og ákvað að læra lagið almennilega víst það vildi ekki sleppa af mér takinu. Fór því að netið, fann textann (vissi ekkert hver söng það eða samdi) og fann einnig gítargripin. Á mánudagskvöldið sat ég síðan ein með gítarinn og lagði mikinn metnað í að læra lag og texta og hlóð laginu einnig inn á iTunið mitt. Síðan þá hefur lagið verið spilað í tíma og ótíma hér í íbúðinni okkar á Catalina og ég sungið hástöfum með. Í morgun gerðist síðan hið undarlega. Á mbl.is sá ég að Gene Pitney lést í morgun. Hver er Gene Pitney? Jú hann er maðurinn á bak við sjálft lagið. Hefði ekki vitað það nema með google leit minni nú á mánudaginn. Allaveganna er búin að spila lagið í morgun á iTuninu í minningu hans. En hversu undarlegt er þetta. Hversu oft er þetta lag spilað í útvarpinu í USA-aldrei. Án þess að hafa vitað það er augljóst að ég og Gene Pitney vorum tengdari en margur. Mér finnst þetta eitthvað krípí.

-Gerður

mánudagur, apríl 03, 2006

Borða hákarlar nammi?

Í dag fékk ég sent eitt kíló af bland í poka nammi. Það kallar á gleði. Plataði Hildi til að til að fullnægja sykurþörf minni og sendi hana á bland í poka stand í Hagkaup. Mamma var síðan meðvirk og sendi mér nammið alla leið til ameríkunnar með pósti og til þess að tryggja að sendinginn kæmist til fíkilsins skrifaði hún á póstkassann að nammið væri heimagert. Jú stundum þarf maður að ljúga að kerfinu til að fullnægja þörfum dóttur sinnar. Er búin að fara á gott sykurfyllerí í dag með tilheyrandi aðgerðarleysi og ómældri gleði. Hef aldrei á ævinni minni átt jafn mikið nammi og einmitt í dag.

Yfir í annað. Í Mexíkó nú um jólin kynntist ég systur Angels, Andreu 28 ára gömlum iðn- og skartgripahönnuði. Hún er kúl og skemmtileg. Keypti af henni skartgripi um jólin en plataði hana jafnframt að gera handa mér eyrnarlokka úr hákarlatönnum sem ég keypti í þeirri ágætu borg Mexíkóborg. Við hönnuðum lokkana í sameiningu, tja ég er að ljúga, ég sagði henni frá hugmyndum mínum um hvernig ég vildi hafa þá en síðan var hönnunin algjörlega undir henni komin. Í dag færði Angel mér tvö pör af hákarlaeyrnarlokkum sem eru með flottari eyrnalokkum sem ég hef átt. Ótrúlega stelpulegir og glæsilegir silfurlokkar en með ansi hressandi töffara fítus sem hákarlatennurnar gefa.

Vá þetta er svona tvöfaldur ánægjudagur. Skal hafa hann þrefaldan á morgun.

-Gerður