föstudagur, mars 31, 2006

Meira um veður

Ætlar blessað vorið aldrei að koma?

Reyndar er varla hægt að kvarta undan kulda en samkvæmt mælaborðinu á Macintosh tölvunni minni er 16 stiga hiti í Los Angeles á meðan Reykvíkingar þurfa að sætta sig við -2 gráður. Vona bara að hann hangi þurr í fyrramálið þar sem knattspyrnuliðið SOPS sem ég leik með, mun etja kappi við kínverska liðið í skólanum. Í síðustu leikjum okkar við Kínverjana höfum við þurft að hafa okkur alla við að eltast við þá á vellinum (þó með góðum árangri) svo það má búast við talsverðum svita. Gæti trúað því að einhverjir liðsmenn okkar verði skelþunnir í fyrramálið ef þeir freistast til þess að kíkja í partýið sem Rússa- og Grikkjaklúbbarnir í Caltech standa að í kvöld. Að vanda verður boðið upp á nóg af ókeypis guðaveigum og verða Rússarnir seint sakaðir um að taka drykkjuna einhverjum vettlingatökum.

En ég ætla ekki að stofna knattspyrnuferli mínum í hættu og læt því flöskuna í friði í kvöld.

-Hannes

þriðjudagur, mars 28, 2006

Skyggni ágætt en súld á vestanverðu landinu

Hef einsett mér að tala um mikilvæg málefni eins og veðrið, rokk og ról og veðrið.
Einu sinni kúreki ávallt kúreki og þar skal ég við sitja. Til hvers að tala um trúaða og trúlausa vísindamenn þegar maður getur rökrætt um Eurovision. Maður spyr sig! Mikilvægi mála er afstætt en skemmtanagildi þeirra er óumdeilanlegt. Þess má líka geta að ég styðst eingöngu við tilfinningarök í öllum mínum athöfnum og sögðu orðum-ég er stolt af því að vera manneskja.

Atburðir sem áttu sér stað en hafa ekki gleymst:
Um mánuði síðan fórum við á tónleika með þeirra ágætu sykursætustelpuhljómsveit Saint Etienne. Tónleikarnir voru haldnir í litum sal (sama húsi og Sigurrósar tónleikarnir nú í haust) og átti hljómsveitin ófáa aðdáendur. Þakið ætlaði að fjúka er tónleikarnir hófust enda kunni hver og einn tónleikagestur lögin jafn vel og bænirnar sínar. Á Saint Etienne tónleikunum var gaman. Þau tóku jafnt lög af nýjustu plötu sinni, Stories from Turnpike, og gamla slagara. Fáar hljómsveitir sem gefa manni jafn góðan sopa af sumrinu um hávetur eins og hún. Í kvöld eru síðan Stereolab tónleikar en við hjónin erum ekkert búin að kaupa miða og efast því stórlega að við förum. Gott samt að vita af tónleikum í nágrenninu ef kroppurinn fær þörf fyrir að dilla sér.


Fyrir hálfum mánuði síðan fórum við síðan á tónleika með píanistanum Keith Jarrett í Disney Hall, stórglæsilegri tónlistarhöll hannaðri af arkiteknum Frank Gehry. Hafði oft keyrt þar framhjá og hugsað með mér hvað þetta væri nú smart hús. Bjóst samt aldrei við því að upplifunin af því að ganga í kringum húsið sjálft væri svona sterk. Maður var umvafinn margra metra háum álveggjum með lífrænum formum þannig að ímyndið ykkur að vera íkorni í spésspegla sal. Það er Disney Hall fyrir fólk.

Hönnunin að innan var ekki jafn stórfengleg. Mínusinn fá þeir fyrir teppið sem þakti gólfin en er ekki frá því að Strætó.is bólstri sætin í strætó með sama efni.
Já ég var dálítið svekkt. Tónlistarsalurinn sjálfur var samt mjög vel hannaður. Allir fengu fyrsta flokks sæti hvort sem þeir sátu fremst, aftast, á hliðunum eða bak við sviðið. Já ég var virkilega heilluð af salnum sjálfum og ég vona að Íslendingar muni stela teikningunum fyrir væntanlegt tónlistarhús við höfnina.

-Gerður

sunnudagur, mars 26, 2006

Aðeins meira um trúaða og trúlausa vísindamenn í Bandaríkjunum... svo fer ég að hætta þessu

Þessi pistill byrjaði sem athugasemd fyrir síðasta pistil. (Ég lofa síðan að setja inn myndir af nýju klippingunni minni sem fyrst. Gerður hjálpaði mér að krúnuraka mig áðan... það hefur ekkert með þennan pólitíska útúrdúr að gera.)

Hérna er það sem Jón Magnús (sem ég er ekki kunnugur) setti inn í athugasemdakerfið og varð uppsprettan að þessum skrifum mínum:

"Ég vildi bara benda þér á þessa grein sem fjallar um hve Bandaríkjamenn vantreysta trúleysingjum (http://www.mndaily.com/articles/2006/03/24/67686 ).

Ég hef séð viðtöl við bandaríska trúleysingja þar sem lýsa því að vera opinber trúleysingi geti haft verulega heftandi áhrif á framavonir. Svo hugsanlega getur það skýrt út að hluta af hverju sumir vísindamenn í BNA segja sig trúaða."


Ég trúi því að í sumum fylkjum Bandaríkjanna eigi trúleysingjar erfitt uppdráttar. Skoðanir fólks og menning í mismunandi fylkjum geta verið ansi ólíkar, alveg eins og menning í Evrópu getur verið fjölbreytt. Því tel ég að alhæfingar um Bandaríkin í heild sinni verði að fara varlega með. Þetta er samband margra ríkja, sbr. nafngiftina, sem geta t.a.m. haft ólík lög hvað varðar viðkvæm mál eins og fóstureyðingar og dauðarefsingar. Mér sýnist þessi grein vera úr blaði frá miðríki, Minnesota, svo þetta kemur kannski ekki á óvart. Í rannsókninni voru 2000 heimili spurð í gegnum síma og tekin viðtöl við 140 einstaklinga, en ekki kemur fram í greininni úr hvaða fylkjum eða hvaðan úr þjóðfélagsstiganum þetta fólk kom. Rannsóknir byggðar á könnunum og samtölum á litlum hóp sem eru síðan yfirfærðar á svona stórt og fjölbreytt menningarsamfélag ber þó ávallt að treysta með mikilli varúð útfrá tölfræðilegu/vísindalegu sjónarmiði. Fylki á Vestur- og Austurströndinni þykja frjálslyndari en restin af landinu eins og úrslit forsetakosninga hafa gefið til kynna en þó eru háskólaborgir í Mið- og Suðurríkjunum oft ansi frjálslyndar og má þar nefna Austin í Texas sem gott dæmi. (Sumir kalla hana vin í eyðimörkinni. Mæli með hljómsveit úr þessari borg: ...And You Will Know Us By The Trail Of Dead.) Margir vísindamenn starfa í háskólum þar sem oft ríkir meira frjálslyndi og umburðarlyndi en í annarskonar umhverfi. Ef þú vilt ná frama í vísindum og fá prófessorsstöðu í góðum skóla er nær eingöngu litið á hvort þú hafir sýnt árangur í rannsóknarstarfi þínu. Samkeppnin er of mikil innan vísindaheimsins til þess að skólar hafi efni á að hafna hæfum einstaklingum á grundvelli trúar eða trúleysis og ég hef ekki séð það gerast þegar ráðið hefur verið í stöður í deildinni þar sem ég stunda nám. (Á meðal prófessoranna í deildinni eru strangtrúaður búddisti, nokkrir gyðingar, kristnir og trúleysingjar.)

Ég hef ekki orðið var við að trúleysingjar eigi erfitt uppdráttar hér í Kalíforníu; allaveganna ekki í skólanum og hjá Jet Propulsion Laboratory. Ég þekki marga hérna sem eru yfirlýstir trúleysingjar og þurfa ekki að fela það. Ef þú ert vísindamaður sem hrærist í heilbrigðu vísindasamfélagi (t.d. á háskólasvæði eins og Caltech) þá ættir þú ekki að þurfa að hafa áhyggjur af svona löguðu. Um leið og trú eða trúleysi fer að skipta máli og yfirvöld fara að stunda ofsóknir munu þessir vísindamenn örugglega reyna að flýja land líkt og svo margir gyðingar í þessum geira gerðu í seinni heimsstyrjöldinni (margir þeirra flúðu til Bandaríkjanna og hófu þar störf við háskóla).

Það getur vel verið að ef Bandaríkjamenn halda áfram að kjósa eins og þeir gera að þá fari umhverfi fyrir vísindarannsóknir þar í landi enn versnandi. Í dag eyðir ekkert land í heiminum jafn miklum peningum í rannsóknir eins og BNA. Þetta land þarf þessa þekkingu til þess að hafa yfirburði á sviðum hermála og svo þarf hagkerfið að ganga smurt svo allir geti upplifað ameríska drauminn og haldið áfram sinni neyslu. Það getur því vel verið að markaðsöflin verði vísindunum til bjargar, því ef hér verða settar of miklar skorður á hvað megi rannsaka, gætu önnur lönd gripið tækifærið og notið ávaxtanna.

Með hræðsluáróðri gæti þó ríkisstjórnin fengið fólk til þess að setja ameríska drauminn á bið. En Bandaríkin þurfa orku í framtíðinni og ef valkosturinn er olía þarf að halda úti her með burði til þess að lumbra á öðrum sem krefst áframhaldandi rannsókna á sviði tækni og drápstóla. Hinn valkosturinn, sem er mun áhugaverðari og á endanum kannski óumflýjanlegur þegar olía og kol klárast (spár segja að það verði á okkar tímum), er að ríkisstjórnin og markaðurinn dæli peningum í rannsóknir á sviði endurnýtanlegra og umhverfisvænni orkugjafa og leysi vonandi þennan yfirvofandi orkuvanda. Útlit er fyrir að framtíð BNA og reyndar allra jarðarbúa standi og falli með vísindunum.

-Hannes

föstudagur, mars 24, 2006

Trú, vísindi og hið óútskýranlega

Í dag rakst ég á bloggfærslu hjá Kristjáni Orra um trú og vísindi og ætlaði ég að bæta við athugasemd við færsluna sem varð síðan alltof löng og ákvað því að skella henni inn hérna í staðinn. Þetta eru náttúrulega mjög viðkvæm og djúp mið sem margir merkir heimsspekingar og vísindamenn hafa hætt sér inn á og því má ekki vænta þess að mér takist að segja eitthvað af viti. En mig langar til þess að styðja þá skoðun Kristjáns að trúleysingjar eru oft ansi harðyrtir og finnst mér þeir mega stundum virða betur þá ákvörðun fólks að trúa á eitthvað yfirnáttúrulegt. Ef skilningur minn á trúleysi er rétt, þá afneita trúleysingjar öllum yfirnáttúrulegum fyrirbærum og styðjast þess á stað við vísindi og trúa því að náttúran lúti ákveðnum lögmálum sem hafa ekkert með guðlegt vald að gera. Ég er sammála þeim um að svörin við því sem er óútskýranlegt í dag er ekki að finna í Biblíunni en held þó að trú á hið yfirnáttúrulega í miklu víðtækara formi þurfi ekki að stangast á við vísindi.

Eins og mínir nánustu vita þá þykist ég stunda rannsóknir í vísindum og stærðfræði og verð að segja að "trú" kemur þar fram á ýmsan máta. Menn skiptast í fylkingar sem aðhyllast mismunandi kenningum um náttúruna. Þessar kenningar stangast oft á og erfitt, eða jafnvel illmögulegt, getur verið að sanna eða afsanna þær. Lítum til dæmis á strengjafræði sem er mjög abstrakt eðlisfræði sem menn binda vonir um að geti útskýrt hvað gerðist á fyrstu andartökunum eftir Miklahvell en það verður líklegast aldrei hægt að framkvæma beinar tilraunir á þessum fræðum.

Stærðfræðin er absolút að því leyti, að ef búið er að sanna með rökleiðslu eitthvað sem gengur út frá ákveðnum frumsemdum getur enginn véfengt það. En stærðfræðin hefur ekkert með náttúruna að gera þótt við getum stundum notað stærðfræðileg tól til þess að lýsa umhverfi okkar (og slík tól eru notuð með góðum árangri). Vísindahyggju má hinsvegar véfengja útfrá heimsspekilegu sjónarmiði því að vísindin byggjast á skynjun okkar og reynslu. Fólk þarf að taka afstöðu um hvort hægt sé að treysta á skynjunina og hvort hún endurspegli veruleikann (hvað svo sem meint er með orðinu "veruleiki"). Þegar ég sleppi epli úr höndinni á mér þá býst ég við því að það detti niður á jörðina af því að það hefur alltaf gert það hingað til því ég geng útfrá því að hreyfing þess lúti náttúrulögmálum.

Þeir trúleysingjar sem ég hef hitt afneita því að til sé eitthvað sem er yfirnáttúrulegt. Þegar vísindin geta ekki útskýrt fyrirbæri notast þau oft við sína útgáfu af yfirnáttúru - slembni (e. randomness). Sem dæmi má nefna skammtafræði, en hún er líkan af náttúrunni og hugarsmíð mannsins en ekki náttúran sjálf. Þegar vísindamanninum tekst ekki að útskýra mælingarnar/reynsluna/skynjunina með líkani sínu bætir hann stundum við slembiþáttum sem oft á tíðum nægja til þess að draga ályktanir og spá fyrir um hegðun kerfa í grófum dráttum. Síðar gæti einhver annar komið með kenningar sem útskýra þessa hegðun og hægt er að losa sig við hluta af þessum slembiþáttum. Það yrði þá uppfært --líkan-- af náttúrunni.

Ef við snúum baki við slembni og trúum því að náttúran ráðist af lögmálum sem við skiljum aðeins að hluta, höfum ófullkomin líkön af og jafnvel séu til faldar breytur sem ekki er hægt að mæla/skynja, þá er í raun allt fyrirfram ákveðið. Þar á meðal öll mannleg hegðun því hegðun alls þyrfti að lúta þessum lögmálum. Við gætum líkt þessu við pælingu í anda Matrix-kvikmyndarinnar: Allt er hluti af risastóru forriti sem er keyrt áfram eftir ákveðnum reglum á fyrirfram ákveðinn hátt. En svo virðist sem að ekki er hægt að mæla allt með ótakmarkaðri nákvæmni (t.d. hraði og staðsetning rafeindar) því það stangaðist á við skilning okkar á náttúrulögmálum svo annaðhvort verður trúleysinginn að "trúa því" að til séu faldar breytur eða að í náttúrulögmálunum sé slembni sem ekki er hægt að lýsa fullkomlega og þar með að til sé eitthvað sem mætti kallast yfirnáttúrulegt. En auðvitað þegar eitthvað í náttúrunni er óútskýranlegt á þessari stundu megum við ekki sætta okkur við loðnar útskýringar heldur halda áfram þekkingarleitinni.

Það ber að nefna að margir fremstu vísindamenn mannkynssögunnar voru (og eru) trúaðir og nægir að nefna Einstein sem dæmi. Þar að auki hef ég hitt töluvert af búddistum, múslimum, gyðingum og kristnum, sem eru strangtrúaðir og hafa jafnframt sokkið sér djúpt í vísindi og verkfræði (og eru jafnvel heimsfrægir á sínu sviði). Hvernig get ég þá haldið því fram að trú og vísindi geti ekki lifað saman, jafnvel þó því fylgi einhver rökleysa, ef sá sem stundar vísindarannsóknir verði að afneita trú sinni algjörlega? (Með trú á ég ekki endilega við að það sem er skrifað í trúritum eigi sér einhverja stoð í raunveruleikanum eða brjóti í bága við náttúrulögmálin.)

Einstein virðist hafa trúað því að guð og náttúran væri eitt og trúði því ekki að í náttúrunni væri nokkuð sem mætti kallast slembið. Hann var ekki fullkomlega sáttur við útskýringar skammtafræðinnar og margir kannast við orð hans "God does not play dice with the universe." og vildi hann með þessu meina að slembni væri ekki hluti af náttúrunni. Stephen Hawking gagnrýndi síðar þessi orð Einsteins og heldur því fram að raunin sé reyndar sú. Þar að auki hefur Hawking sagt: "The future of the universe is not completely determined by the laws of science, and its present state." svo samkvæmt þessu er ekki einungis slembni hluti af náttúrulögmálunum heldur einnig eru lögmál vísindanna enn frekari takmörk sett þegar kemur að því að spá fyrir um framtíðina. Er þá hægt að hrekja trú á hið yfirnáttúrulega með vísindi sem mótrök og felst ekki einmitt í þessari staðhæfingu Hawkings að eitthvað í heiminum sé yfirnáttúrulegt (lúti engum náttúrulögmálum, nema þegar við skilgreinum þessa óvissu sem hluta af lögmálunum)? Vísindin útiloka ekki tilvist guðs, aðeins að hann geti gripið inn í og átt við gangverk náttúrunnar.

Trúariðkun og bænir sem hugleiðsla eru af hinu góða og sumt í Nýja Testamentinu getur verið sæmilegur grunnur fyrir siðfræði til þess að lifa eftir og byggja samfélag okkar á. Ég er ekki hrifinn af trúboði hvort sem er hjá kristnum eða trúleysingjum en tel að gott samfélag eigi að hvetja til sjálfstæðrar, gagnrýnnar og röklegrar hugsunar. Ég tel að trú sem hamlar framförum og setur fót í veg fyrir að vísindin og auðgun á skilningi okkar á náttúrunni sé ekki af hinu góða. Það þarf enginn að véfengja notagildi vísindanna og til þess nægir að benda á allar þær tækninýjungar í kringum okkur, framfarir á sviði læknisfræði og margt annað sem hefði annars ekki orðið að veruleika án hungurs mannsins á frekari skilningi á náttúrunni og stærðfræði. Hinsvegar má auðvitað deila um á siðferðislegum forsendum hvernig á síðan nota þessa vísindalegu þekkingu, en það er líklegast ekki hlutverk vísindamannsins. Geta vísindin ein og sér veitt okkur þennan siðferðislega grundvöll og hvernig getum við verið sammála um hvað sé siðferðislega rétt eða rangt?


-Hannes

föstudagur, mars 10, 2006

Ég vil fá endurgreitt!

Nú hafa englarnir yfirgefið borg sína því úti er haglél.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi svona "óveður" hérna. Ég er jafnvel að spá í að tala við Arnold og biðja um endurgreiðslu því mér var sagt að svona lagað gerist ekki í Suður-Kalíforníu. Samkvæmt fréttunum er hitastigið undir 10 gráðum svo það er gott að vita af föðurlandinu einhvers staðar ofan í skúffu ef kuldaboli fer að sperra sig eitthvað frekar.

Vona að knattspyrnleiknum, sem ég á að leika í á morgun, verði ekki aflýst vegna bleytu á vellinum. Það yrði í þriðja skiptið á tveimur mánuðum!! Guillaume verður ævareiður.

-Hannes