þriðjudagur, febrúar 21, 2006

e.t.v. eitthvað sem má læra af börnum

Barn sem hefur eytt miklum tíma í að byggja spilaborg og finnur eytt spil sem er ekki á réttum stað hugsar sig ekki tvisvar um, jafnar borgina við jörðu og byrjar aftur frá grunni. Barn sem teiknar mynd og setur eitt lítið strik á vitlausan stað er fljótt að krumpa saman blaðið, henda því í ruslið og hefjast síðan strax aftur handa við að teikna nýja mynd.

-HH

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Gold Rush and Rollercoaster

Gott var að sjá snjóinn og láta kuldann bíta aðeins í kinnarnar um helgina. Engin beinbrot urðu á skrokknum eftir renneríið aðeins blöðrur á fótum eftir þrönga skíðaskó. Í Mammoth skein sólin sem aldrei fyrr og sólarvörnin frá Mexíkóferðinni kom að góðum notum í fjöllunum. Já í Mammoth var gaman að skíða.

Hér er mynd frá ferðinni en á henni eru Vala, Óliver, ég, Hannes og Guillaume ekki langt frá toppi Mammoths.-Gerður

föstudagur, febrúar 10, 2006

Á skíði skelli ég mér... hei tralalala...

Erum að leggja lokahönd á að pakka niður vettlingum, húfum og treflum. Höfum ekki séð snjó í rúmlega ár eða síðan um jólin 2004 og nú erum við á leið í heljarmikla skíðaferð til Mammoth. Segjum ykkur ferðasöguna á mánudaginn.

Jahúú!!!

-Hannes

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Fararskjótar

Fyrir tveimur vikum síðan fjárfestum við hjónin í forláta fjallahjólum. Þetta hefur orðið til þess að nú gerist allt í lífi okkar á fimmföldum hraða en áður studdumst við fyrst og fremst við lappir þegar kom að samgöngum. Þetta er náttúrulega bylting og erum við hin hressust með hana. T.d. tekur mig nú 1 mínútu að hjóla í vinnuna í staðinn fyrir 5 mínútna göngu áður-geri aðrir betur.

Þar sem við erum mjög meðvituð um það að hafa keypt fjallahjól en ekki strandarhjól fórum við um seinustu helgi í fjallahjóltúr í nágrenninu. Fjöllin hér í kring eru tilvalin fyrir þessa íþróttaiðkun en hjólagarpur hefur tjáð mér að þau séu á heimsklassa. Þetta er frekar fyndið sport en eftir umhugsun er það bara ansi hressandi.

Út í aðra fararskjóta. Á föstudaginn var varði Stuart vinur okkar, eða Dr.Disco, doktorsritgerð sína. Í tilefni af því fór 18 manna hópur út að borða og í framhaldið í ökuferð með stærstu limmósínu sem ég hef augum litið. Jú,jú partý sem ferðast milli staða getur náttúrulega ekki annað en orðið skemmtilegt en milli þess sem við dilluðum okkur á skemmtistöðum, keyrðum við um LA með ótakmarkað áfengi og ansi hressilegum DJ.

Um næstu helgi er ferðinni heitið til Mammoth á skíði með jú tja sirka 16 öðrum. Helgina þar á eftir er síðan ferðinni heitið til Hollywood á tónleika með sykursætustelpugrúbbunni Saint Etienne.

-Gerður