föstudagur, janúar 27, 2006

Fyrir aðdáendur glysrokks og spagettívestra

Á litlum auglýsingasnepli í mars árið 1985 stóð:

"L.A Guns and Hollywood Rose presents the band Guns N' Roses"

Þetta var auglýsing fyrir fyrstu tónleika þessara meistara glysrokksins og voru þeir haldnir á staðnum Troubadour hér í Los Angeles. Fyrir aðdáendur glysrokks ætti þessi staður að skipa svipaðan sess og svarti steinninn í Mekka, Grátmúrinn og Þingvellir gera fyrir aðra hópa. Þangað fór ég síðasta miðvikudag til að hlýða á indírokk og fyrir rúmu ári síðan sá ég fídbakk-meistarana í Sonic Youth leika í þessu sama húsi. Staðurinn er lítill og dimmur og veggina prýða myndir af hljómsveitum sem hafa þar stigið á stokk - þ.á.m. glysrokkarar eins og Poison, Mötley Crue og sjálfur Miles Davis, sem á síðasta hluta ferils síns var orðinn hálfgerður glysjassari, keyrandi um á gulum Ferrari, íklæddur þröngum silfurlituðum stretch-buxum og í þykkbotna skóm með fiskabúri í hælnum.

Þótt Los Angeles sé fráhrindandi með allar sínar hraðbrautir og dreifðu byggð, og þótt þar sé engin Frelsisstytta, skakkur turn eða miðaldakirkja, þá leynast hér merkilegir staðir og söfn tengdir yngri menningu og listum eins og dæmið að ofan gefur til kynna. Fórum t.a.m. á kúrekasafn um daginn þar sem við sáum sýningu um vestrana sem Sergio Leone leikstýrði. Þar var til sýnis ponchoinn, lambaskinnsvestið og fleira sem leðurfésið Clint Eastwood klæddist í "The Good, the Bad and the Ugly" og dollaramyndunum og tók Guillaume af þessu mynd til sönnunar:Svo sannarlega rættist þar draumur fyrir gamlan kúreka að sjá þessa leikmuni með berum augum.

-Hannes

PS til Gerðar: Engar áhyggjur, ég er ekki "Brokeback Mountain"-kúreki.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

(Bach+kaffi)/tvö pí = ....

Er hægt að komast nær guðdómi en í tónlist Bachs? Sit hér við lærdóm og vinnu og hlusta á Jóhannesarpassíuna á sama tíma og sólin teygir anga sína inn um gluggann. Ekki skemmir fyrir að ég var að ljúka við bolla af ljúffengu espressókaffi. Hvílík tónlistar- og koffeinsæla.

Talandi um tónlist og sælu þá var ég að komast að því að í mars ætlar meistari Keith Jarrett að spila improveseraða sólótónleika í tónlistarhúsi hér í LA, hönnuðu af Frank O. Gehry. Spurning um að skella sér... er búinn að bíða eftir þessu tækifæri í meira en tíu ár!!

-Hannes

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Komin til LA

Gleðilegt nýtt ár!!!

Ferðin til Mexíkó var þriggja vikna ævintýraferð. Sáum margt, mikið, skrítið og lítið en samt aðallega mikið. Mættum krókódíl, sáum ótrúlegar Maya og Azteka rústir, snorkluðum í Karabískahafinu, syntum í hellum, lentum í bardaga við tvo sporðdreka, syntum í Kyrrahafinu, borðuðum kókóshnetur og fórum á djammið í næststærstu borg í heimi. Er hægt að biðja um meira?


Angel þann 31.desember 2005. Fljúgandi fiskarnir voru á boðstólnum það sama kvöld.


Hannes, ég, Vala og Óliver í helli við Tulum á Yukatanskaga.


Strákofar á gylltri strönd í Tulum þar sem við gistum þrjár nætur.

Í janúar erum við hjónin búin að vera önnum kafin. Ég er byrjuð í námi, vinnu, keramiki, magadansi o.s.frv. og Hannes heldur áfram rannsóknum á fullu og leggur kapp við að læra á munnhörpuna sem ég gaf honum í jólagjöf.
Janúar er búinn að vera kaldur í LA. Ég er byrjuð að ganga með vettlinga, trefil og vera í flíspeysu sem veit ekki á gott. Á reyndar hugulsama vini sem keyptu ull handa mér í Argentínu og vona ég að hún muni bæta fataskápinn minn og Hannesar í þessu kuldakasti.

-Gerður