þriðjudagur, desember 13, 2005

Á leið til Mexíkó

Nú eru um 10 klukkustundir þangað til að við leggjum af stað í ævintýraför til Mexíkó. Stefnan tekin á Yucatan-skaga fyrstu vikuna til að skoða Maya-rústir og gista í strákofum á gylltri strönd. Síðan verður farið til Mexíkóborgar þar sem jólunum verður eytt hjá fjölskyldu Angels. Þaðan verður líklegast farið til Oaxaca og loks í nágrenni Acapulco þar sem Ruiz-Angulo fjölskyldan á ættingja.

Munum svo sannarlega sakna íslenskra jóla í faðmi fjölskyldu og vina en við bara gátum ekki sleppt því frábæra boði að fá að heimsækja fjarlægt land í fylgd með innfæddum góðvini okkar.

Gleðileg jól og hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.Gerður og Hannes

mánudagur, desember 12, 2005

Nýklipptur

Ég komst í rafmagnsrakvélina hans Ólívers síðastliðið laugardagskvöld. Gat eiginlega ekki beðið eftir því að losa mig við "hjálminn" og skaust því strax inn á bað hjá þeim skötuhjúum Völu og Ólíver og byrjaði á því að raka hliðarnar svo eftir stóð þessi myndarlegi hanakambur með hálfgerða rottu hangandi í hnakkanum. Í gær lagaði og fínpússaði Gerður þessa grófvinnu mína og í dag er ég búinn að fá tvö hrós fyrir tískulega og framúrstefnulega hárgreiðslu. Hef aldrei verið jafn ánægður með klippingu hér í Bandaríkjunum.

-Hannes

fimmtudagur, desember 08, 2005

Enskunám í fangelsi?

Hitti þjónustufulltrúann klukkan átta í morgun. Hún var eins útlítandi eins og ég bjóst við, fimmtug, feit og í joggingalla. Hún talaði mikið um að hún mætti nú aðeins í vinnuna fyrir mig, því hún væri veik og ætti að vera heima hjá sér sofandi.
Ég var öll hin kurteisasta og sagði bara takk, takk í gríð og erg.
Hún gaf mér upplýsingar um frítt enskunám sem ég gæti tekið í CES (Community Educational service)-Jíbbý. Hún sagði mér að taka strætó þangað og tala við starfsfólkið þar, því það myndi hjálpa mér. Amen. Var nokkuð smeik en hlýddi henni. Beið eftir strætó og hoppaði síðan út eftir nokkurn bíltúr. Var nú stödd í iðnaðarhverfi og aðalbygging CES leit út eins og fangelsi. Ekki leit þetta betur út þegar ég gekk inn í bygginguna. Úhh..nú var ég komin inn í fangelsi. Inni var ískalt, veggirnir berir og fólk einsamalt á dangli hér og þar, jú í jogginggalla. Eftir nokkur ævintýri við að finna réttu skrifstofuna fann ég starfsmann sem hjálpaði mér. Nú var ég öll hin bjartsýnasta. Fyrsta manneskjan um morguninn sem var kurteis við mig og almennileg (strætóbílstjórinn var nota bene öll hin leiðinlegasta-frussaði út úr sér óskiljanlegum orðum og ég þegar ég þakkaði fyrir mig frussaði hún út sér einhverskonar uhhmmuuuuhhmmmuuu hljóði). Já nú var komin
á rétta staðinn og komin inn í kerfið eftir alllanga skriffinnsku. Búin að gefa allar upplýsingar um mig, úr hvaða menntaskóla ég hafði útskrifast o.s.frv.(Bandaríkjamenn vilja vita allt um mann þegar maður fyllir út umsóknir). Starfsmaðurinn lét mig síðan fá alla pappíra og sagði mér að ráðfæra mig við þjónustufulltrúa skólans til að skrá mig í rétta námskeiðið. Úhh...já þá byrjaði ballið aftur. Nokkur lög af þykkum veggjum. Konan þar, sem var ólíka leiðinleg og strætóbílstjórinn, sagði mér að ég þyrfti að gefa þeim allar einkunnir mínar frá því úr menntaskóla svo ég gæti tekið enskupróf hjá þeim til að vita hvaða kúrs ég ætti að fara í. Úhh...já þetta er rökrétt. Til þess að sýna þeim getu mína í ensku þurfa þeir fyrst að sjá einkunnir mínar frá því úr menntaskóla. Það er ekki heil brú í þessu kerfi hjá þeim. Ég þakkaði náttúrulega bara fyrir mig og hugsaði að þetta fangelsi fengi nú ekki að sjá mikið meira af mér í framtíðinni. Bandarískt ríkisrekið skólakerfi-Amen. Ekki skrítið að Evrópubúum finnist íbúar þessa lands oft óupplýstir og aumar sálir. Ekki skrítið að bandarískir framhaldsskólanemendur snappi við og við og skjóti nokkra nemendur og kennara. Já er komin með nóg að kerfinu hér í þessu landi, þetta er ekki alveg að ganga upp hjá þeim. Ætla að fara og tala við starfsfólk Caltech en ég er viss um að það muni færa mér enskunámskeið á silfurfati en Caltech er jú einkaskóli og háskólanemendur í grunnnámi borga líka 2.5 milljón á ári til þess að geta lært við þessa stofnun. Já, velkomin til landins þar sem kjörorðin eru "Allir geta orðið forseti". Já það er undarlegt misréttið í þessu landi. Er fegin að vera ljóshærð og bláeygð í USA árið 2005, ég myndi ekki bjóða í þetta kerfi ef ég væri ekki af engilsaxneskum uppruna. Bið til allra þeirra sem fæddust dökkir á hörund og þurfa að glíma við kerfið.

Sumum finnst ég eflaust ofdekraður Íslendingur að höndla ekki að kljást við kerfið en það eina sem ég bið um er sænsk nýlenda hér í LA. Eitt stykki velferðarþjóðfélag væri ekki amarlegt á nýju ári. Hver nennir að senda Bush email?

Nóg með það. Er að fara í jólaboð í boði Caltech. Þar mun vera jólasveinn og veitingar ( í boði einkafyrirtækja). Eftir það er okkur boðið í þrítugsafmæli til hins franska Seth. Vona að heilsan leyfi okkur að taka þátt í gleðskap dagsins.

-Gerður.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Þjónusta, jólatré og ullarsokkar

Bandaríkjamenn fá ekki alltaf plús í kladdann þegar kemur að þjónustu. Fyrir tveimur vikum síðan ákvað ég að skrá mig í ensku fyrir næstu önn í háskólanum hér í Pasadena.
Það gekk ekki vel. Skólinn var á stærð við flugvöll og biðraðirnar endalausar. Eftir bið fékk ég þær upplýsingar að námskeiðið myndi kosta mig 800 dollara og það væri fast verð. Ég þakkaði því bara fyrir mig og fór. Nú voru góð ráð dýr. Fór því og talaði við Barböru, frönsku mömmuna sem ég passa stundum fyrir, og spurði hana nánar út í enskunámið en hún hafði tekið námskeið í skólanum síðastliðið vor og ég vissi að hún hafði fengið það ódýrara. Hún gaf mér nafn og netfang á þjónustufulltrúa fyrir nemendur skólans, sagði mér að skrifa bréf til hennar og jú taka það fram að ég væri vinkona sín. Sama dag settist ég niður skrifaði bréfið og sendi á þjónustufulltrúann. Tíminn leið og ég fékk ekkert svar. Hugsaði með mér að hún væri önnum kafinn og ég beið þolinmóð. Fyrir nokkrum dögum spurði Barbara mig hvort ég væri búin að fá svar frá þjónustufulltrúanum. Ég sagði nei og hún sagðist ætla að athuga málið. Í gær hafði síðan Barbara samband þar sem hún sagði mér að þjónustufulltrúinn hafði eytt póstinum en hún hafði ekki vitað að ég væri vinkona sín. Ahahhhh...þar kom að því. Þjónustufulltrúi nemenda eyðir pósti án þess að gefa nemanda nokkur svör og felur sig síðan bak við það að hafa ekki vitað að því að ég þekkti einhverja manneskju sem þekkti hana. Jú,jú einhvern veginn svona virkar þjónustan hér. Maður hefur þurft að ljúga sig háttsetinn til að fá borð á veitingarstöðum og svo nú þarf maður augsljóslega að þekkja rétta fólkið ef maður ætlar að fá þjónustu í ríkisreknu háskólunum. Allaveganna er komin í samband við þjónustufulltrúann, talaði við hana í morgun og hún sagði mér m.a. að besta vikona sín væri einmitt frá Íslandi, hún mundi samt ekki alveg hvað hún hét en það var eitthvað Bobbí. Hitti hana klukkan 8 í fyrramálið. Ætla að semja við hana að hún þurfi að borga mér til þess að fara í námið eftir þessa útreið...eða svona næstum því.

Í fyrradag keyptum við hjónin okkur jólatré, innflutta furu frá Ítalíu. Jólatréð er á stærð við cheerios pakka og stendur nú vel skreytt á sófaborðinu við hlið aðventukransins. Jólaskrautið er þessi jólin handgert en ég var svo heppin að vera í stelpusaumaklúbbi sem hélt littlu jólin saman með tilheyrandi föndri og te drykkju. Skemmtilegast þótti mér þegar ein af kínversku stelpunum tók upp danskt dagblað og vildi endilega kenna okkur að gera dönsk jólahjörtu.

Annars er það helst að frétta að ég og Hannes vöknuðum í gærmorgun veik. Ójá, flensa búin að herja á alla vini okkar og við héldum að við værum sloppin. Ónei, erum nú klædd í ullarsokka og þömbum te í gríð og erg.

-Gerður

föstudagur, desember 02, 2005

Fjárframlög frá einkaaðilum til menntamála á Íslandi og bensínlaus framtíð

Hér í Caltech væri ekki svona margt ókeypis nema til kæmi óhemju mikið fjármagn frá einkaaðilum og fyrirtækjum hér í Bandaríkjunum. Þessi fyrirtæki eru ekki öll að biðja um einkaleyfi fyrir því sem kemur út úr rannsóknum og þeir nemendur í framhaldsnámi sem njóta góðs af skólastyrkjum frá mönnum eins og Gordon Moore (stofnanda Intel) þurfa ekki að skrifa undir framsal á sálu sinni. Bandaríkin eru svo sannarlega ekki gallalaus, en hér finnst þó sumum fjársterkum aðilum þeir bera siðferðislegar skyldur til þess að styrkja menntastofnanir. Reyndar ýtir ríkið svolítið undir slíkt þar sem hægt er að fá afslátt hjá skattinum ef fyrirtæki eða einstaklingur gefur pening til samfélagsins, en auðvitað þykir þetta líka svolítið flott. Á Íslandi hafa Björgólfsfeðgar fegrað ímynd sína með Klink og Bank og eiga þeir skilið klapp á bakið fyrir það framtak. Einnig hefur Baugur hjálpað til við að láta Barnaspítala Hringsins verða að veruleika. Hefur Jón Ólafs gert eitthvað sambærilegt? Hvað með alla þessa feitu bankastjóra og útgerðamenn? Það getur vel verið að þeir hafi skilað einhverju til baka og kannski réttlæta þeir þetta með skattgreiðslum þótt sum fyrirtæki hafa skráð sig erlendis til þess að komast hjá slíku. En sér ríkisstjórnin til þess að þess að eitthvað af þessum sköttum skili sér til menntamála og rannsóknarstarfa á Íslandi og munum við búast við því að það gerist á meðan ríkisstjórnin eyðir peningunum okkar í að reisa virkjanir fyrir álver? Kannski sér fólk engan hag í því að Íslendingar stundi rannsóknir og vill láta önnur lönd sjá um slíkt.

Hér í vikunni kom prófessor frá Princeton og hélt fyrirlestur um að olíuframleiðsla heimsins væri á toppi sínum og hér eftir færi að ganga verulega á olíubirgðirnar. Ég hef farið á a.m.k. fjóra aðra slíka "dómsdags"-fyrirlestra hér við skólann, og allir fyrirlesararnir skipa sér í hóp fremstu vísindamanna heimsins. Staðreyndin er sú, að maðurinn veit ekki um neina leið til þess að fullnægja orkuþörf mannkynsins þegar skortur verður á olíu. Sýnt hefur verið fram á að öll þau ráð sem við höfum, t.a.m. að virkja sjávarföll og vinda, reisa kjarnorkuver og stíflur, duga ekki. Svo má ekki gleyma því að vetnisorka er leið til þess að geyma orku, ekki framleiða hana, svo það er ekki lausn vandans. Enn ráðum við ekki við þá tækni sem þyrfti til þess að hægt væri að nota sólarorku í staðinn, þótt það sé e.t.v. eina vonin sem við eigum. Á meðan útlitið er svona ákveða ráðamenn og ráðakonur Íslands að nota okkar dýrmætu endurnýjanlegu orku til þess að knýja álver. Íslendingar verða með sérstöðu í þegar olíupartýinu lýkur og við ættum að geta gert eitthvað gáfulegra við þessar auðlindir. En slíkt gerist varla þegar selskinnsklæddi forsætisráðherra okkar frá Austfjörðum vill gera vinum sínum greiða - allt fyrir atkvæði og vegna kosningaloforða. Hér þykir mér bruðlað óþarflega mikið með íslenska náttúru, auðlindir og skattpeninga.

Hversu margir doktorsnemendur í námi erlendis sjá einhverja framtíð í því að stunda rannsóknir á Íslandi? Ég er ekki einu sinni viss um að slíkt starf muni bjóðast mér heima á Fróni þegar ég lýk námi og enda örugglega sem verðbréfamiðlari hjá einhverjum bankanum. Kannski ég verði ríkur og gefi hluta af fjármunum mínum til styrktar mennta- og menningarmála. Þ.e. eftir að ég er búinn að kaupa mér plasmasjónvarp og Porsche-jeppling - án slíks búnaðar ertu ekki maður með mönnum á Íslandi.

Viljum við að Íslendingar haldi áfram á þá braut að verða fórnarlömb neyslunnar eða eruð þið sammála mér um að framtíð Íslands liggur í menntun og mannauði?

Ég vil enda þennan pistil á tilvitnun í texta um FM-hnakka, tekið úr lagi sem Ægir Eyjólfsson frændi minn samdi í grunnskóla. Kannski við ættum að skeyta þessu aftan við þjóðsönginn:

Við erum ljósahestar.
Hlustum á FM og Mono,
allan daginn, út og inn,
þetta er yndislegt líf.

-Hannes

Veðrið og ókeypis: Munurinn á Caltech og Fróni

Það er margt ólíkt með Suður-Kalíforníu og Íslandi. Hér er til dæmis ekkert spennandi að tala um veðrið þar sem það breytist vanalega lítið frá degi til dags og hver hefur þá áhuga á veðurfréttum. Svolítið skondið þar sem hér hafa veðurspámennirnir/konurnar nær alltaf rétt fyrir sér (jæja, allt í lagi, stundum er hitinn 29 stig í stað 30 eins og spáð var, en hverjum er ekki sama). Á meðan gætu spámennirnir/konurnar á Íslandi allteins lesið upp úr Gamla Testamentinu. Fyrr í vikunni, þegar ég sá að það var spáð rigningu í dag hér í Borg Englanna, hélt ég í þessa gömlu íslensku von um að veðurspáin myndi ekki rætast. En auðvitað rættist hún og nú er svolítill úði úti og um 15 stig. Á morgun er hinsvegar spáð glampandi sól og 20 stiga hita og sú spá mun vafalaust standast. Mjög gott þar sem fyrir höndum er síðasti knattspyrnuleikurinn fyrir jól og hér í Caltech verða ókeypis útitónleikar með hljómsveitinni Jimmy Eat World. Reyndar hefði mátt velja betri hljómsveit, en það verður allaveganna ókeypis grillmatur frá Albönunum í Burger Continental og svo bauðst þessi hljómsveit til þess að leika ókeypis.

Já, ókeypis, það er annað sem er ólíkt með Caltech og flestu sem ég hef fengið að kynnast á Íslandi. Ótrúlegt en satt þá borga skólayfirvöld meira að segja oft áfengið fyrir partý sem haldin eru af nemendafélögum og klúbbum. Félagi minn frá Wales var meira að segja svo sniðugur að stofna vínsmökkunarklúbb hér við skólann og getur nú drukkið þessi fínu rauðvín á kostnað stofnanda Intel og fleiri góðra aðila sem hafa veitt skólanum fjárhagslegan stuðning. Þetta teygir síðan anga sína alla leið til Íslands þar sem fyrrum nemendur Caltech eru að skipuleggja ferð þangað næsta sumar og hæstvirtur forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, er búinn að bjóða þeim í mat og áfengi á Bessastöðum - ókeypis, að sjálfsögðu. En hvenær verður gömlum nemendum Háskóla Íslands boðið í grillaðar lambakótilettur og ókeypis bús hjá Óla og Dorritt?

-Hannes