mánudagur, nóvember 28, 2005

Spádómskertið tendrað í gær

Komin heim frá San Francisco. San Francisco er án efa uppáhaldsborgin mín hér í USA þótt ég verði nú að viðurkenna að hún sé sú eina fyrir utan LA sem ég hef eytt tíma í. Já San Francisco er falleg. Skemmtum okkur konunglega innan um öll jólaljósin, hreina loftið og hressandi hæðirnar. Eyddum svo einum degi í Sonoma sem er fallegt vínhérað norður af SF, ekkert langt frá Napa Valley. Þar er fallegt. Mjóir sveitavegir og fallegir haustlitir. Minnti mig svolítið á umhverfið hjá Póstinum Páli. Heimsóttum þrjá vínbændur en einn þeirra hafði áður verið heimsóttur af strákunum í Sideways í þeirri ágætu mynd. Kalkúnninn á þakkargjörðarhátiðinni var góður, efast ekkert um að kalkúnn mun vera oftar á borðum eftir þessa dýrindismáltíð.

Í gær bjó ég til aðventukrans. Fórum í jólaverslun í göngufjarlægð sem tja er ekki minni en IKEA heima á Íslandi. Þar var allt til og miklu meira en það. Aðventukransinn þetta árið gæti verið í Hús og Híbýli frá 1974. Risastór, með háum kertum, stórum könglum og slaufum. Ansi smart. Könglarnir eru það amerískir að þeir eru með lykt. Ójá, nú ilmar íbúðin af kanel. Veit ekki alveg hvað kanarnir eru stundum að spá?

Á morgun er ég síðan að fara í lífsýna skönnun. Þar verð ég meðal annars skoðuð tengsl mín við FBI, DOJ (veit ekki hvað það er) og Child Abuse. Jú auðvitað er þetta mikilvægt í stóru landi. Sérstaklega í landi þar sem staðlaðar atvinnuumsóknir biðja um skírnarnafn og svo eru 5 línur fyrir neðan það þar sem maður á að skrifa öll önnur nöfn sem maður hefur notað um ævina. Fyrir all saklausan Íslending er þetta samt bara fyndið. Held að ég hef fyllt út svona 25 blaðsíður af upplýsingum um mig í sambandi við vinnuna og ég er enn að fá pappíra til að fylla inn.

Á fimmtudaginn eigum við miða á tónleika með Beck Hansen. Fékk tölvupóst (er í aðdáendaklúbbi) um að Beck væri að fara að spila í einhverjum sjónvarpsþætti og honum vantaði fólk til að vera með sér. Hmm...veit ekki alveg hvort við erum að fara á tónleika eða hvort við séum að fara að gera eitthvað með Beck,hmm...þeirra orð voru: to be a part of Beck's live performance. Atburðurinn er allaveganna utandyra og miðar EXTREMELY LIMITED!! eins og þeir orðuðu það sjálfir. Er pínu spennt. Ég get allaveganna byrjað ættfræðiumræður að íslenskum sið ef þagnir verða vandræðilegar. Hann ber nú einu sinni sama ættarnafn og ég.

-Gerður

mánudagur, nóvember 21, 2005

Jólasól, Wilson, kalkúnn og keramik

Jólasmákökurnar voru bakaðar í gær í 32 stiga hita og sól. Spesíur og konfektkökur skulu það vera heillinn. Efast um að þær dugi til jóla með þessu áframhaldi en mér sýnist spesíurnar vera að klárast og ekki liðinn meir en einn sólahringur síðan flórsykrinum, smjörinu og hveitinu var blandað saman.

Út í annað. Við hjónakornin eru komin með badmintonæði. Jú við erum dugleg í sportinu en sérstaklega æðunum. Keyptum spaða í seinustu viku en höfum nú farið vikulega í fimm vikur sem samsvarar heilum fimm skiptum (fengum lánaða spaða í byrjun). Erum búin að stórbæta okkur á þessum tíma og stefnum á snillinginn.

Á miðvikudaginn fer ég síðan í næstsíðasta tímann minn í keramikinu. Undarlegt hvað ég er orðin mikil keramikgella. Hálf skammast mín fyrir það. Þarf að fara leynt með það en ég er oðin mjög svo háð þessum tímum, vakna með litasamsetningar og form í kollinum. Ónei, þetta átti aldrei að gerast. Viss um að ég haldi áfram eftir jól. Það átti heldur aldrei að gerast. Hvað geri ég þegar ég er orðin fimmtug?

Á fimmtudaginn verður þakkagjörðarhátíðin haldin. Við stefnum á San Francisco þar sem foreldrar Allison hafa boðið okkur í kalkún. Hlakka mikið til að eyða helginni í þeirri ágætu borg. Vona að Ghiradelli súkkulaðiverksmiðjan verði heimsótt en það er langþráður draumur minn að heimsækja það bragðgóða fyrirtæki.

-Gerður

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Fyrir tölvunirði...

Síðastliðinn föstudag keyptir prófessorinn handa mér nýja tölvu sem ég barasta verð að monta mig aðeins af. Þetta er PowerMac G5, dual 2,5GHz (tveir örgjörvar) með --6,5 gígabæt í innra minni--, DVD brennara og kjötmiklum hörðum diski. Með þessu fylgdi síðan splunkunýr kristaltær 19 tommu flatur LCD skjár. Angel er búinn að vera að suða í mér að setja nýjustu útgáfuna af FIFA inn á tölvuna en ég veit ekki hvort það sé sniðugt. Nú er bara að láta þennan reiðskjóta erfiða aðeins og í tilefni af þessu ætla ég að setja af stað útreikninga sem gætu aukið skilning okkar á upphafi heimsins. Einnig ætla ég að skrifa forrit sem vonandi leysir Geirfinnsmálið. Læt ykkur vita þegar ég er kominn nær svarinu.

-Hannes

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

fimm núll

Klukkan hálf eitt síðastliðinn laugardag hlupum við Gerður inn á knattspyrnuvöllinn hér í Caltech, tilbúin í slaginn gegn erkifjendum okkar - kínverska liðinu. Þessir Kínverjar eru nokkuð sprækir og leiknir með knöttinn og voru með eitt besta liðið í deildinni í fyrra. Ég gerði því ráð fyrir að við þyrftum að hafa svolítið fyrir hlutunum, en annað kom á daginn. Gerður byrjaði sem miðjumaður og ég á hægri kanti. Fimm mínútum eftir að flautað var til leiks náði Guillaume að pota boltanum í netið eftir góða baráttu hjá m.a. Gerði sem gaf ekkert eftir og var næstum búin að traðka á nokkrum í hinu liðinu. Stuttu eftir það skoraði Guillaume aftur og í hálfleik var staðan 2-0. Við náðum að bæta við þremur mörkum í seinni hálfleik - þar af skoraði ég eitt eftir hornspyrnu. Hápunkturinn var þó þegar Gerður átti glæsilegt skot í slá langt utan að velli svo í glumdi. Því miður fór boltinn ekki inn, en fólk í báðum liðum stóð agndofa á eftir. Lokatölur voru því 5-0 fyrir okkur gegn einu erfiðasta liðinu í deildinni! Gátum því ekki annað en farið brosandi í moskuna - Gerður með slæðu og ég berfættur með blöðru á stórutá.

-Hannes

mánudagur, nóvember 14, 2005

Þarf ég að fela holdið betur?

Á laugardaginn var setti ég á mig slæðu til að hylja hárið og klæddist síðum kufli.
Jú ég var að fara í mosku til að verða viðstödd giftingu vinar okkar. Fyrir athöfnina fannst mér þetta allt saman mjög spennandi og áhugavert. Gestirnir biðu allir fyrir utan moskuna eftir brúðhjónunum og kvenmennirnir litu allir út eins strangtrúaðir múslímar. Leið mér eins og ég væri kúguð? Nei, mér leið bara eins og ég væri að fara að leika í leikriti. Komin í múnderingu og beið eftir handritinu.
Brúðkaupið sjálft var áhugavert. Hugsa að ég gerist ekki múslími í bráð enda verð ég að viðurkenna að skilningur minn og umburðarlyndi gagnvart trúarbrögunum jukust ekki að þessu sinni. Sem kvenmaður alinn upp í vestrænni hugmyndafræði verða full margir árekstrar.

Brúðkaupsveislan sjálf var skemmtileg. Haldin á veitingarstað með lifandi tónlist þar sem taktar frá því úr gæsapartíi brúðarinnar voru endurteknir en þar réð magadans ríkjum, dansi sem fyrir þessar dömur er jafn eðilegur og fyrir mig að sparka bolta. Jú á svona stundum er maður ekkert alltof stoltur af vikivakanum.
Er enn að læra. Mjöðm upp, snúa, skapa langa línu...

-Gerður

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Bíó, brúðkaup og afmæli

Á sunnudaginn var sáum við íslensku heimildarmyndina/kynningarmyndina Gargandi snilld á kvikmyndahátíð í LA. Það er svo sem ekki mikið að tala um, myndin uppfull af kúli og þjóðrembingi og minnti mig helst á risaauglýsingu frá Flugleiðum frekar en faglega unna heimildarmynd. Tónlistarmennirnir stóðu sig þó vel að vanda en þar voru fremst í flokki Björk okkar, Sigurrós, Múm, Mugison og Mínus. Það sem mér þótti áhugaverðast var spurning eins áhorfandans (Kana) til leikstjórans eftir lok myndarinnar. Hún var svohljóðandi (sögð í mjög hneyksislegum tóni): " Why wasn't Pal Oskar in the film? " Ég er enn að reyna að ímynda mér hvað áhorfandinn var að hugsa. Var hann að reyna að vera kúl til þess eins að láta aðra áhorfendur dást að þekkingu hans á íslenskri tónlist? Var þetta einkavinur Páls Óskar? Eða finnst þessum manni Páll Óskar eiga heima á meðal ofangreindra tónlistarmanna?
Dæmi nú hver og einn fyrir sig. Ég er að minnsta kosti enn að hlæja og jú hugsa.

Á laugardaginn mun vinafólk okkar, hinn senigalski Fady og marókkóska unnusta hans Mouna, ganga í það heilaga í moskvu í klukkutíma fjarlægð frá heimili okkar hjóna. Hef aldrei fyrr farið í múslima brúðkaup og bíð því spennt. Er búin að fá slæðu lánaða til að hylja hárið. Ætli ég þurfi að vera berfætt?

Pabbi minn varð sjötíu og eins árs í gær, 7.nóvember-sama dag og Jón Arason var hálshöggvinn forðum daga, hann er á Kúbu þar sem hann hélt upp á daginn. Nóvember er einnig afmælismánuður Stínu systir og Jóns Loga frænda. Ætli til sé kökuhraðsendingarþjónusta Svíþjóð-LA? Vona það!

-Gerður

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Cuba Libre

Innan skamms munu hér birtast myndir frá helginni sem leið, en á laugardaginn klæddum við okkur í grímubúninga og fórum í hrekkjavökupartý eftir upphitun hjá Guillaume þar sem ég grillaði argentískt nautakjöt ofan í mannskapinn. Kveikt var í mesquite viðarkolum frá Mexíkó og gerðist ég meira að segja svo argentískur að útbúa chimichurri til þess að bera fram með kjötinu. Ákvað í kjölfar þessa að einhver bið verður á því að ég gerist grænmetisæta.

Og til þess að koma að þriðja landinu frá latnesku Ameríku að, þá er ég mjög stoltur af tengdaforeldrum mínum sem ákváðu með stuttum fyrirvara að heimsækja Kúbu í þessari viku. Sjálfan dreymir mig að fara þangað áður en Castro fellur frá, því Kúba verður án efa ekki söm án hans og mun líklegast kaffærast í ómerkilegum bandarískum hamborgarabúllum. Sverrir Jan sagði mér að það hafi verið mjög symbólískt þegar hann gekk yfir Karlsbrúna í Prag stuttu eftir að járntjaldið féll og á hinum brúarendanum öskraði á hann neónskilti frá McDonalds. Ríkisstjórn Kúbu gefur víst öllum þegnum sínum sem eru orðnir nógu gamlir til þess að drekka, eina flösku af Havana Club rommi aðra hverja viku. Verður hægt að skola niður tvöföldum hamborgara með tvöföldum romm í kók þegar bandarísk ómenning gerir innrás á Kúbu?

-Hannes