miðvikudagur, október 26, 2005

Forever Your Girl

Já helgin var hressileg. Stóðum okkur allar eins og íslenskum stelpum sæmir m.ö.o. fullar og vitlausar. Einn af hápunktunum var þegar sú fræga kona Paula Abdul varð vinkona okkar. Nú sit ég dag og nótt við símann og bíð eftir símtali því einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að hún bjóði mér að vera aðstoðardanshöfundurinn sinn.

Annars er það helst að frétta að í dag eignaðist ég kalifornískt ökuskirteini eftir verklegt próf í morgun og kláraði að prjóna vetrartrefil handa Hannesi.

-Gerður

laugardagur, október 22, 2005

eftir tvo espressóbolla.....

Sit hér í eldhúsinu á Catalina Avenue, nýbúinn að sötra annan espressóbollann minn þennan morguninn. Gerður fór í búðaráp með Völu til þess að búa sig undir daginn og kvöldið, en þær eru á leið í pæjuleik í Hollywood ásamt nokkrum öðrum íslenskum stelpum. Sjálfur er ég að spá í að hafa þetta nokkuð karlmannlegan dag. Fyrst er það fótboltaleikur klukkan 2 þar sem ég á víst að vera í vörninni. Eftir það var ég að spá í að plata strákana til þess að grilla einhverjar stórar og safaríkar nautasteikur þar sem öllu kanínufóðri og óþarfa pjátri verður sleppt. Guillaume stakk upp á því að við myndum spila póker í kvöld, en ég er nú ekkert fyrir fjárhættuspil jafnvel þótt við myndum ekki leggja neitt undir nema matadorpeninga eða eldspýtur. Svo er hann svo andskoti lunkinn í spilum og á örugglega eftir að skilja okkur eftir á nærbuxunum einum fata - þ.e.a.s. ef fatapóker verður fyrir valinu sem ég efast nú um. Allaveganna verð ég að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera á meðan Gerður þræðir alla heitustu staðina í Hollywood. Einnig til þess að slá á áhyggjurnar um að hún hitti Keanu Reeves aftur og hann bjóði henni betra líf.

Þarf ég nokkuð að hafa áhyggjur?
Hvort er annars eftirsóknarverðara, að eiga Hollywood-stjörnu eða doktorsnema í stærðfræði sem eiginmann?
Hefur kaffið sem ég var að drekka gert mig stressaðan?

Kannski er þörf á að ég opni viskýflöskuna í kvöld.

-Hannes

fimmtudagur, október 20, 2005

Fótbolti

Efast ekki um að ég fari að tala ítölsku fljótlega. Ástæðan er ekki sú að ég kunni eitthvað í ítölsku eða sé að læra hana, ónei, heldur er ástæðan sú að ég er byrjuð að spila eins og ítalskur atvinnumaður í knattspyrnu. Fyrir tveimur vikum spilaði ég tvo leiki í röð með viðeigandi óhreyfanleika næstu þrjá dagana, keppti fyrir hönd vélaverkfræðinga m.ö.o. er orðin mjög professional og bíð eftir íþróttastyrknum. Í síðari leiknum fékk ég gríðarstóran marblett á handlegginn eftir glæsilegan varnarleik (marbletturinn er enn til staðar). Síðan þá hef þurft að afsaka Hannes hvert sem við förum, meira að segja hafa ókunnir komið upp að mér og spurt hvað kom fyrir, það eru ekki allir sem kaupa það að ég hafi verið að spila vörn í fóbó. Já það er gaman í fótbolta.Verð samt að viðurkenna að ég er enn mjög hrædd við boltann og er jú pínu súkkulaði. Sit nú sveitt sem fyrr eftir góða æfingu nú í kvöld. Læt ykkur vita ef AC Milan hefur samband við mig.

P.s.fyrir þá sem hafa áhyggjur er ég mjög meðvituð um að vera balanceruð í íþróttaiðkun minni og fór á balletæfingu á þriðjudaginn bara svona til að viðhalda stelpunni í mér.

Gerður

Gullfjallið

Um síðustu helgi flúðum við malbikið og hraðbrautirnar í Los Angeles og fórum í tjaldferðalag með góðum vinum okkar héðan úr Pasadena. Klukkan 2 eftir miðnætti á aðfararnótt laugardags komum við að tjaldstæðinu í Montana de Oro og á móti okkur tóku dádýr og þvottabirnir. Við hentum tjöldunum upp og skriðum upp í svefnpokana þreytt eftir langa vinnuviku. Mér gekk þó eitthvað illa að sofna og um miðja nótt vaknaði ég upp við það að einhver var að vesenast í þakgrindinni á bíl Stephanes og Mörtu þar sem þau voru með fjallahjólin sín. "Djöfullinn sjálfur", hugsaði ég, "einhver er að reyna að stela hjólunum!". Ég leit út um tjaldið og þarna sá ég a.m.k. þrjá feita þvottabirni að uppi á þakinu á bílnum í leit að fæði. Hugsaði með mér að það væri engin hætta á að þeir stælu hjólunum svo ég fór að sofa aftur. Daginn eftir voru þvottabjarnarfótspor út um allt og höfðu þeir meðal annars komist í kæliboxið hjá Völu og Ólíver. Eitthvað höfðu þeir smakkað á klettasalatinu en kunnu víst ekki að meta slíkt kanínufóður. Sem betur fer létu þeir bjórinn alveg í friði - ekki hefði ég viljað hafa einhverja drukkna þvottabirni með læti á tjaldstæðinu um miðja nótt.

-Hannes

fimmtudagur, október 06, 2005

Hvar er Swayze þegar ég þarfnast hans?

Á milli þess sem ég hend in CV-íum fer ég í spænskutíma, keramiktíma, silkiþrykktíma, lyfti, fer í fóbó, jóga, sund og passa börn. Já það er ansi mikil vinna að vera ekki með fasta vinnu. Áhugamál taka tíma. Sé fram á að hafa ekki pláss fyrir vinnu í stundatöflunni minni.

Fór í fyrsta keramik tímann í gær. Bjó til eina skál. Tekur augsljóslega tíma að læra réttu tökin. Allan tímann beið ég eftir að Patric Swayze myndi standa fyrir aftan mig. Það gerðist ekki. Hann var augljóslega fjarri góðu gamni.
Hef einsett mér það að gera ekki neitt ljótt. Það er mjög erfitt þar sem keramik er annars vegar því það getur verið svo viðbjóðslega hallærislegt. Fór í Borders (bókabúð) fyrr í dag til að þroska fegurðarskynið gagnvart keramiki. Var einhverju nær. Veit allaveganna hvað ég vil ekki gera. Það er fyrsta skref.

Úhh...var rétt í þessu að fá símtal frá JPL day care center. Fer í fyrsta viðtalið mitt á miðvikudaginn. Er að sækja um stöðu sem aðstoðarkennari fyrir 5-8 ára börn. Það er samt svo mikið skriffinsku brjálæði hérna. Ok. búin að senda inn cover letter og resume og komin með viðtal: mjög gott. En hvað svo? Í viðtalinu ef þeim líst vel á mig þá get ég formlega sótt um, þ.e. fyllt út umsóknareyðublað hjá þeim. Og hvað svo? Veit ekki enn. Annars til útskýringar er JPL skammstöfun fyrir Jet Propulsion Laboratory en fyrirtækið býr til geimflugvélar og er í samstarfi við NASA.

Nú þarf ég augljóslega að setja upp eðlisfræðisvipinn og brosa þess á milli.

-Gerdur

mánudagur, október 03, 2005

Nýklipptur

Gerður var að ljúka við að klippa mig og nú er búið að útrýma þessari sveppahárgreiðslu sem ég var kominn með. Þetta er bara nokkuð pönkað og ég er mjög sáttur. Síðast þegar ég fór í klippingu hérna í LA var það á einhverri Aveda hárgreiðslustofu hér í grenndinni hefði ég betur mátt að klippa mig sjálfur. Kannski er ég bara svona vanafastur og vil helst láta Árna í Hárbeitt sjá um hárið mitt, enda er það eitt af mínum fyrstu verkum að kíkja á stofuna til hans þegar ég kem heim til Íslands; lendi í Keflavík klukkan 7 að morgni og er orðinn nýklipptur klukkan 11.

Eins og Gerður er búinn að skrifa var helgin ansi viðburðarík. Löggurnar sem komu til þess að slútta partýinu hjá Angeli voru kostulegar - kalltæki í eyrunum, byssubelti, tugguleður og vatnsgreiðsla. Tóku starf sitt mjög alvarlega og það þorði enginn að sýna mótþróa. Spjallaði aðeins við þá og þeir voru kurteisin uppmáluð. Partýið hélt þó áfram í félagsherbergi á skólalóðinni, fjarri starfsmönnum LAPD.

-Hannes

sunnudagur, október 02, 2005

Vikan sem leið

-Á mánudaginn var sá ég George Clooney berum augum í 2 klst löngum viðtalsþætti sem tekin var upp fyrir sjónvarpsstöð sem ég man engan veginn hvað heitir. Já ég var ein af þeim óþolandi sem klappa og hlægja í gríð og erg til að gera sjónvarpsefnið hressilegra. Clooney var samt mjög hressilegur og var lítið um leik hjá mér að þessu sinni, kemur allt frá hjartanu þar sem Clooney er annars vegar.

-Á þriðjudaginn fór ég í fyrsta spænsku tímann minn. En nú er ég byrjuð að taka tungumála kúrsa í Caltech-Ja Ja Sehr Gut.

-Á miðvikudaginn fór ég á fyrirlestur hjá Lehmans brothers en það er nafn yfir fjárfestingarbanka í New York. Þeir buðu upp á góðar veitingar en ég veit ekki alveg með fyrirlesturinn.

-Á fimmtudaginn hittist saumklúbburinn en hann samanstendur af 5 íslenskum stelpum sem búa hér í LA. Þar var drukkið martini, hvítvín, slúðrað og heimasíða lítalækna skoðuð. Það er hressandi að skoða fyrir/eftir myndir.

-Á föstudaginn fórum við í innflutningspartý til Angels. Löggan kom og ég bjóst við skothríð. En nei löggan í Bandaríkjunum er ekkert svo hættuleg. Hún sagði bara: "please can you stop that noise". Við gáfum Angel möffinsform og vonumst núna eftir dýrindis kaffiboðum sérhvern dag hér eftir.

-Á laugardaginn fórum við í þrítugsafmæli til Alans. Hann hélt það á ströndinni með grilli og öllu tilheyrandi. Ég synti í sjónum eins og ég ætti lífið að leysa og grillaði mikið magn af marsmellows. Á þessum árstíma er mikið magn af örverum í sjónum sem gefa frá sér ljós við áreiti. Til útskýringar: þegar sólin var sest lýsti sjórinn þegar öldurnar brotnuðu eins og í þær hafði verið sett "glow in the dark" vökvi. Þetta hljómar undarlega en ég hafði aldrei séð neitt þessu líkt. Það sama gilti um sandinn á ströndinni. Nóg að snerta hann eða stampa niður fótum og sandurinn lýstist allur upp. Held að þetta hafi verið eitt af sérstökustu náttúruupplifunum lífs míns. Við gáfum Alan Surf bretti í afmælisgjöf og hann var voða ánægður.

-Í dag sá ég Japana marsera um í Lederhosen flaggandi bandaríska fánanum. Velkomin til LA. Í dag fór ég einnig í klippingu til japanskrar konu og lít nú út eins og LA gella með stytturnar á réttu stöðunum m.ö.o. mjög fín. Eyddum deginum með Mörtu (Marta fór einnig í klippingu) og Stephan. Gengum um ströndina, fengum heimatilbúin ís, fórum í þýskan bjórgarð, versluðum í mexíkönskum matvörumarkaði og drukkum heitan maísdrykk að hætti íbúa El Salvador. Í kvöld var síðan grillað með öllum krökkunum og fylgst með nýju seríunni um Aðþrengdu eiginkonurnar.

-Gerður