þriðjudagur, september 20, 2005

Aahnoold hefur svikið mig

Af einhverri ástæðu fannst hæstvirtum fylkisstjóra vorum, Arnold Schwarzenegger, kominn tími til þess að rebúblikanar færu að gera vart við sig hér í nágrenninu.

Í dag gengum við Gerður eftir hinu forkunnarfagra Grænastræti sem við höldum svolítið upp á. Bílaframleiðendur virðast vera á sama máli en þeir hafa notað þessa götu við upptökur á auglýsingum og hef ég sjálfur rambað inn á þá við slíka iðju. Þessi gata er bara rétt handan við hornið þar sem við búum og hefur að geyma skemmtilegar litlar búðir sem ekki eru á nokkurn hátt tengdar þessum hefbundnu bandarísku stórkeðjuskrímslum - vin í eyðimörk þar sem McDonalds-trúðurinn ræður ríkjum og hlær að okkur heimskum neytendunum. Á einu horninu á Grænastræti var alltaf lítil sæt líkamsræktarstöð á stærð við íslenska skóbúð en áðan tók ég eftir að hún var þar ekki lengur. Þess í stað eru kalífornískir repúblikanar búnir að opna þar skrifstofu, heilu ári fyrir kosningar. Þegar litið er inn um gluggann má sjá risastóran bandarískan fána, heilan vegg þakin er merki flokksins og í glugganum sjálfum er síðan auglýsingaspjald frá síðustu kosningunum með slagorðinu "Join Arnold!".

Aldrei átti ég von á að sjálfur Schwarzenegger færi að loka líkamsræktarstöðvum til þess að opna skrifstofur fyrir stjórnmálaflokk núverandi forseta.

-Hannes

mánudagur, september 19, 2005

Guys Institute Vs. Chic Institute

Um helgina varð ég ekki nýr viðskiptavinur "New Me, Surgical Institute".
Nei, en fyrir þó nokkru síðan varð ég viðskiptavinur "Follow Me, Guys Institute" og er það enn. Follow Me tekur að sér kúnna eins og mig sem hafa gefið líf sitt háskólanum tímabundið og leiðir þá áfram í daglegu lífi drengja. Þetta er fyrirtaks fyrirtæki rekið af eiginmanninum. Verkefni sem ég hef þurft að takast á við er til dæmis að fara í fótbolta með strákunum og lyfta sem steratröll væri.
Ég veit ekki hversu lengi ég mun leyfa þessu fyrirtæki að hafa stjórn á frítíma mínum en eins og er hentar það mér mjög svo vel. Ég bara mæti, skalla nokkra bolta, bæti þríhöfðann og tala síðan um bjórtegundir. Vankantarnir eru að ég er farin að geta gert armbeyjur á tánum og hugsa óþarflega illa um hárið á mér. Með öðrum orðum ég er farin að umturnast í strák.
Sem betur er þessum önnum mínum að ljúka og í framhaldi af því ætla ég að stofna fyrirtækið "Look at Me, Chic Institute". Þetta fyrirtæki mun að sjálfsögðu sérhæfa sig eingöngu í gellulegum hugsunarhætti og athöfnum.
Vá hvað ég hlakka mikið til!!!

föstudagur, september 16, 2005

Nýr ég

Væri ekki gaman að geta skipt út líkamanum sínum eins og nýjum bíl? Fá lán hjá einhverjum bankanum fyrir kostnaðinum og mæta í vinnuna einn daginn með nýtt nef? Af auglýsingunum í LA Weekly að dæma virðist þetta viðgangast hér í Suður-Kalíforníu. En auðvitað kemur þetta hvorki mér né ykkur á óvart þar sem þetta er nú einu sinni LA. Samt bregður mér alltaf þegar ég opna þetta blað og á móti mér æpa heilsíðuauglýsingar með hálfnöktum karlmönnum og kvenmönnum þar sem boðið er upp á ýmsar lýtaaðgerðir. Þarna eru fyrirtæki eins og "Beverly Hills Surgical Institute" með slagorðið "We Know Beauty" og heimasíðuna www.weknowbeauty.com, "Turn Back Time, Cosmetic Medical Center" með heimasíðuna www.weturnbacktime.com og það sem mér þykir mest grípandi "New Me, Surgical Institute", sem reyndar hefur einnig undirtitil "A Medical Corporation" (áhugasamir geta kíkt á síðuna www.lovenewme.com). Það má augljóslega sjá ákveðna reglu í nafngiftum þessara fyrirtækja. Fyrst er að fundið eitthvað grípandi slagorð sem á einhvern hátt felur í sér fegurð og eilífa æsku og síðan er bætt við einhverju sem vekur traust, eins og til dæmis orðið "institute" sem er næsta skothelt (þetta orð kemur einmitt fyrir í nafni skólans míns, "California _Institute_ of Technology").

Eru þessi fyrirtæki að grínast? Er til fólk sem gleypir við þessum nöfnum og segir síðan stolt við vini sína að þau ætli að fá sér nýtt nef hjá "New Me, Surgical Institute"? Ætli það leyfilegt að hirða fituna sína úr fitusoginu til þess að drýgja tekjur heimilisins með því að búa til úr henni sápu?

Ég er kominn með ískyggilega há kolvik og verð líklegast hálfsköllóttur fyrir fertugt. Ætla ekkert að gera í því enda engin þörf á þegar litið er til Jóns Hansen og pabba sem eru báðir mjög svalir og ungir í fasi þrátt fyrir sín háu kollvik. Svo hefur þetta ýmsa kosti; hvern langar ekki til þess að vera með hárkraga sem má safna í tagl? Eilíf æska hefur ekkert með hár og hrukkur að gera.

-Hannes

þriðjudagur, september 06, 2005

Richter og Reeves

Rafmagnslaust í L.A. í dag. Sá það á mbl.is. Mogginn lýgur aldrei. Hélt í fyrstu að þetta hafi verið hryðjuverk en komst síðan að því með frekari lestri að einhver starfsmaður hafi óvart klippt á aðalrafmagnskapalinn. Vá, ekkert spennandi. Ég sem hélt að ég byggi í stórborg. Ég sem hélt að maður gæti ekki þverfótað fyrir skothylkjum og að maður fengi að upplifa a.m.k. einn bílaeltingaleik á dag. Allaveganna urðum við ekki fyrir rafmagnsleysinu og ef ekki væri fyrir netið þá hefðum ekki haft neina hugmynd um að hálf borgin hélt sig við kerti í dag.

Út í aðra sálma. Íris hans Halla frænda dvaldi hjá okkur yfir helgina. Það var gaman. Grilluðum argentískt naut, borðuðum mangó, drukkum margaritur, fórum á ströndina og sáum gellu í g-string á línuskautum. Þrátt fyrir að L.A. geti klikkað á bófa-og hasarímyndinni klikkar hún ekki á Baywatchímyndinni.
Íris-takk fyrir komuna. Þú ert ávallt velkomin!

Annars vorum við síðustu helgi á tónlistarhátíð Heilags Arthúrs eins og við höfum áður komið að. Já sáum margar hljómsveitirnar spila. Skemmtilegast var að sjá Sonic Youth en þeir voru kannski ekki þeir skemmtilegustu að hlusta á vegna lélegra hljóðgæða í fyrstu lögunum. Þau voru samt svo flott! Mun skemmtilegri á tónleikum en ég bjóst við. Já síðustu helgi var margt um manninn. Aldrei séð jafn mikið af frægu fólki í einu á ævi minni. Hressandi var að sjá kappann Keanu Reeves. Ég var næstum því byrjuð að elta hann eins og unglingur þegar ég áttaði mig á því að ég er ekki lengur skotin í honum og ekki lengur unglingur.

-Gerður

Slurp

"Slurp... sluuuurrrppp". Einhvern veginn svona hljómar Gerður þegar hún gæðir sér á heimatilbúnum frostpinna, sitjandi við skrifborðið niðursokkin í bækur. Hér hef ég setið í sófanum síðustu 5 mínúturnar, hlustandi á Nick Drake í bland við slurpið og Gerður hefur ekki hugmynd um að ég er búinn að vera að fylgjast með þessu frostpinnaáti. Hvað þá að ég væri að skrifa um hennar búkhljóð og opinbera þetta allt saman á veraldarvefnum svo allir sem vilja geti lesið. Næst ætla ég að vera tilbúinn með míkrafón til þess að taka þetta upp.

Þeir sem hafa áhuga á heimatilbúnum frostpinnum ættu að lesa aðeins lengra. Í hitanum í gær bjuggum við til "smoothies" úr mangóbitum, banana, jarðaberjum og appelsínusafa. Veit ekki hvort það var hitinn, en þetta var einhver besti "smoothies" sem ég hef bragðað í lengri tíma og aldrei þessu vant var smá afgangur eftir að við höfðum svalað þorsta okkar. Minnug ferða okkar til Mexíkó, þar sem er hægt að kaupa íspinna gerðum úr ávaxtasafa með bitum af ferskum ávöxtum, datt okkur í hug að hella þessu í íspinnaboxið sem við keyptum í IKEA fyrr á þessu ári og henda þessu í frystihólfið (sjá athugasemd hér að neðan). Afraksturinn var þessi einstaklega bragðgóði og holli frostpinni með engum viðbættum hvítum sykri!!


ATH: Ameríski ískápurinn okkar er einn og sér efni í langan pistil sem við látum bíða betri tíma. En það má þó nefna það að ískápur foreldra minna kemst nánast inn í þennan skáp og þar af leiðandi er alltaf eins og hann sé tómur sama hversu oft þessi tveggja manna fjölskylda fer oft í Trader Joe's að versla inn mat. Fæ þess vegna aldrei þessa tilfinningu sem fylgir því að versla mikið í matinn og stútfylla ískápinn, tilbúinn til þess að takast á við kjarnorkuvetur ef út í það er farið. Það er þó e.t.v. kostur að það er nóg pláss fyrir óniðurskorna fullorðna manneskju þarna inni og aldrei að vita ef næstu dagar verða heitir hvort ég bregði mér þarna inn til þess að kæla mig.

-Hannes

föstudagur, september 02, 2005

Heilinn minnÞað er margt heillandi við heila. Á mánudaginn var gerði ég vini mínum Alan greiða með því að fara í heilaskanna. Ég fékk að launum fullt af pening og örugglega krabbamein en hann fékk að launum að sjá hvernig heilinn minn virkar þegar ég tek ákvarðanir. Hann er að já að vinna að rannsókn um hvernig mannsheilinn starfar þegar hann tekur ákvarðanir. Ég var inn í heilaskannanum í klukkutíma (minnti mig á senu úr 2001) og tók ákvarðanir um myndir sem birtust mér á skjá sem ég hafði yfir augunum. Fyrir hverja rétta ákvörðun sem ég tók (of erfitt að lýsa rannsókninni í smáatriðum)þénaði ég 25 cent. Ég spilafíkilinn fór alveg yfirum í skannanum og þénaði meir en Alan hafði nokkurn tíma séð. Nú á ég salt í grautinn og allir eru sáttir.

p.s. Ég og Hannes erum að fara á Sonic Youth tónleika á sunnudaginn. Þeir eru að spila á tónlistarhátíð sem stendur yfir í tvo daga. Ef þið hafið áhuga á að tékka á henni bendi ég ykkur á heimasíðu hátíðarinnar
Góðar stundir.

-Gerður

fimmtudagur, september 01, 2005

Líkhús og rabarbari

Sem betur fer hefur hitastigið lækkað hér í Pasadena. Búið að vera ca. 30 stigum í dag en hefur verið í kringum 38 stig síðustu daga. Hitinn hefur samt ekki það mikil áhrif á okkur á daginn þar sem við sitjum við skrifborð í loftkældum byggingum Caltech. Á bókasafninu gengur þetta loftkælingarbrjálæði svo langt að það mætti halda að hluti kjallarans væri nýttur sem líkhús. Allaveganna mætti Gerður með lopapeysu með rúllukraga og ullarsokka í morgun!! (Ég hef ekki enn farið niður í "sub-basement" bókasafnsins, þ.e. kjallarann undir kjallaranum, en sú hæð er lokuð almenningi. Það er því ekki hægt að útiloka þessa líkhúsatilgátu...)

Með lækkandi hitastigi fæst maður loksins til þess að fara út að hreyfa sig og skokkuðum við hjúin í dag ca. 5,6 km í San Marino - millahverfinu sem er rétt sunnan við skólalóðina. Einhvern veginn fæ ég alltaf á tilfinninguna að fólkið þar sé ekkert alltof spennt fyrir því að ókunnugir séu að væflast um lóðina þeirra. Í hverri lóð er áberandi átthyrnt skilti sem segir "No Trespassing - Armed Response". Við tökum enga áhættu og höldum okkur því á gangstéttinni. Bezt að bíða með að stelast inn í garða til að stela rabarbara þangað til við komum næst til Íslands.

-Hannes