þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Margt hefur drifið á daga okkar ...

Hversu oft bakar maður 100 pönnukökur í einum rikk á ævinni?
Augljóslega einu sinni. Já í gærkvöldi var sýning á þeirri ágætu mynd 101 Reykjavík á útitjaldi á skólalóðinni. Hannes bjó til kynningu um Ísland, Reykjavík og reykvíska menningu sem hann sýndi fyrir myndina, Vala bakaði 4 skúffukökur, Helen smurði flatkökur með hangikjöti og eins og fyrr segir bakaði ég pönnukökur.
Auk þessa var keypt annarskonar gúmmeðali auk drykkja.
Áhorfendur skemmtu sér vel enda varla annað hægt með ofantaldar veitingar í mallakútnum.

Já annars hefur verið nóg að gera í 36-38 stiga hitanum fyrir utan það að komast fram hjá því að bráðna.

-Á laugardaginn kepptum við í æsispennandi íþróttakeppnni, Gradiators, og hvet ég alla sem áhuga hafa að fara inn á eftirfarandi link til að kynna sér það mál frekar.

-Á sunnudaginn spilaði ég tennis í fyrsta sinn á ævinni en það hafði verið langþráður draumur hjá mér. Er komin með æðra takmark eftir spileríið og það er að ganga í Venus systrafélagið.

-Gerður

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Um vískílandskikann

Til þess að svala forvitni einhverra þá ákvað ég að útskýra þetta með viskílandskikann aðeins betur. Fyrr í sumar var okkur hjónunum boðið í mat til Helga Ben og Maríu. Eins og vanalega voru móttökurnar höfðinglegar og fengum við að smakka eðalgott skoskt maltvískí sem ber það þjála heiti Laphroaig (borið fram einhvern veginn svona: "lafrojg"). Helgi sagði að sá sem eignast flösku af Laphroaig eiga þess kost að gerast svokallaður "vinur Laphroaig". Ekki fær maður eingöngu að nota þessa virðulegu nafnbót heldur fylgir með þessu eins ferfeta landskiki í ræktunarlandi viskíframleiðandans.

Við urðum mjög spennt yfir þessum tíðindum og ákváðum að kaupa flösku af þessum guðaveigum sem fyrst eftir að við kæmum aftur til Pasadena og gera tilkall til landskika. Nú erum við stoltir eigendur skika númer 264892. Hér að neðan getið þið séð loftmynd af skikanum og bendir rauð ör á ferfetið góða:


Áhugasamir ættu endilega að líta á heimasíðu Laphroaig:
http://www.laphroaig.com

-Hannes

P.S. Ef vinur Laphroaig heimsækir brugghúsið fær hann staup af maltviskíi sem nokkurs konar arðgreiðslu af landskikanum. Að sjálfsögðu fær hann einnig að sjá og labba um þetta ferfet sem er hans eign á meðan hann lifir.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Sigurgyðja og skoskur landskiki

Í dag tókum við ekki þátt í Ólympíuleikunum. Nei við tókum þátt í Nike-hlaupinu.
Nike-hlaup hljómar mjög fagmannlega. Við fengum nike skó, nike sokka og nike andinn sveif yfir vötnum. Þarna voru saman komnir um 300 hlauparar af öllum stærðum og gerðum tilbúnir að svitna í 33 stiga hita. En er Nike-hlaup jafn fagmannlegt eins og það lítur út fyrir að vera? Tja er ekki viss. Að einhverju leyti minnti þessi atburður mig á íslenskt Samsölubakaríshlaup (þótt ég verði að viðurkenna að ég hef aldrei þreytt það hlaup, ef það er þá til?). En hver er ástæðan? Jú eftir hlaupið þyrptust allir hlauparnir að tveimur borðum þar sem veitingar biðu. Þar var staðið í röð í einhverjar mínútur og ef maður var heppinn fékk maður samloku, kjúkling, salat, ávexti, ávaxadjús og bjór. Ég og Hannes vorum mjög heppin og fengum þetta allt. Já það er gott að vera fljótur að hlaupa á ögurstundum í lífi manns. Það er gott að vera búin að læra að hamstra mat (þökk sé íslenskum lágvöruverðsbúðum) á ögurstundum í lífi manns. Eftir mat og drykk stóðu síðan allir í þyrpingu sveittir sem aldrei fyrr því nú var komið að lottóinu. Já allir þátttakendur fengu lottómiða í upphafi hlaupsins og nú var komið að atburðinum sem að mér virtist vera hápunkturinn. Ég og Hannes erum náttúrulega nýbúin að sjá Kalla og sælgætisgerðina og héldum því fastast í þá von að við værum hin útvöldu og myndum hreppa nike handklæði, nike vatnsbrúsa eða jafnvel nike púlsmæli fyrir allt erfiðið. En heppnin var ekki með okkur í þetta sinn. En þrátt fyrir allt erum við sátt. Eigum forláta nike dry fit sokka, lærvöðva með mjólkursýrum og maga sem er fullur af kjúkling og bjór.

Annars er það helst að frétta að ég og Hannes eignuðumst skoskan viský landskika um helgina. Fylgist með og fréttir af honum munu berast innan skamms.

-Gerdi

föstudagur, ágúst 19, 2005

Markmið morgundagsins

Markmið okkar hjónanna:

-Taka þátt í LA-maraþoninu í mars 2006
-Taka þátt í San Fransisco-maraþoninu í maí 2006
-Gefa út jólasmellinn Pottþétt LA jól 2005

Tökum þessum markmiðum mjög alvarlega.

Erum byrjuð að æfa hlaup eins og óð værum með hræðilegum afleiðingum. Ég get ekki gengið, ekki hlegið og ekki farið fram úr á morgnanna. Harðsperrur og ofþreyta hafa tekið sér bólfestu í mínum kroppi. Við ætlum samt að halda áfram æfingum þar sem við virðumst tilbiðja masókisma og fara út að hlaupa eftir skóla.

Höfum nú þegar samið þrjá smelli á samplerinn hans Hannesar. Höfum sagt skilið við Garageband og ætlum að taka okkur alvarlega. Það þýðir að nú sömplum við öll okkar hljóð sjálf og búum til gríðarlega hressilega takta úr hljóðunum. Eins og er hljómar þetta hræðilega en okkur til huggunar ætlum við að fela okkur bak við Pottþétt stimilinn því með hann er allt leyfilegt.

Annars skín sólin sem fyrr. Látum ykkur vita hvernig gengur að fylgja markmiðunum en eins og er stefnir þetta allt í Ólympíuleika í hlaupi og sampli.

-Gerdi

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Eilítill fróðleikur um mynd gærdagsins

Willy Wonka and the Chocolate Factory kom út árið 1971 og var Roald Dahl, höfundur upprunalegu bókarinnar Charlie and the Chocolate Factory, annar af handritshöfundunum. Myndin var fyrst og fremst gerð fyrir peninga frá fyrirtækinu Quaker Oats sem ætlaði að nýta hana sem auglýsingu á nýju súkkulaði. Þetta súkkulaði bar heitið Wonka Bar, og leit út eins og aðal súkkulaðistykkið í myndinni. Stuttu eftir að myndin var frumsýnd og hillur búða í Bandaríkjunum voru fylltar af þessum Wonka stykkjum þurfti að innkalla það allt aftur vegna framleiðslugalla: Svo illa vildi til að það bráðnaði við herbergishita og varð að einni klessu. Sýningum á myndinni var þó haldið áfram og minning hennar lifir enn þótt þessi auglýsingabrella hjá Quaker Oats hafi runnið í sandinn.

Ég veit ekki afhverju, en mistök þessa matvælafyrirtækis minna mig á þegar gosdrykkjaframleiðandinn Sól hf. setti á markað gosdrykk með súkkulaðibragði (minnir að hann hafi heitið Kókó). Fljótlega áttuðu þeir sig á að hinum almenna neytenda fannst þetta hinn versti viðbjóður og líklegast hafi markaðsdeildin þeirra verið á sýru þegar þeir fengu þá "snilldarhugmynd" að gera einhverskonar kolsýrða kókómjólk. Allt var innkallað og brunað með brettin beint út á öskuhauga. E.t.v. var markaðurinn ekki tilbúinn fyrir svona byltingarkennda nýjung.

-Hannes

mánudagur, ágúst 15, 2005

Súkkulaðimynd og frísbýleikur

Í kvöld fór ég á frísbýæfingu. Já leikurinn heitir Ultimate frisby og hér í Bandaríkjunum er keppt í þessari íþrótt. Mér fannst gaman en efast um að ég sé rétta manneskjan til að taka frisbýleik alvarlega. Eftir æfinguna hef ég þó bætt við mig 6 nýjum frísbýköstum sem ég vona að eigi eftir að nýtast mér vel í framtíðinni.

Annars vorum ég og Hannes að klára að horfa á stórmyndina " Willy Wonka and the Chocolate factory". Frábær mynd með skemmtilegri leikmynd. Hugsa samt að heimildarmynd um myndina hafi næstum því skorað jafn mörg stig og myndin sjálf. Mæli með þessari klassík fyrir alla þá sem finnst súkkulaði gott.

-gerdi

laugardagur, ágúst 13, 2005

Marsering mörgæsanna

Í göngufjarlægð frá okkur Gerði er bíóhús sem sýnir eingöngu óháðar kvikmyndir og ágætt að fara þangað til þess að svala listrænum þorsta sínum. Það var ekki endilega einhver þorsti sem rak okkur þangað í gærkvöldi en þangað fórum við þó til þess að sjá mjög krúttlega heimildamynd sem kallast "March of the Penguins" eftir Frakkann Luc Jacquet. Mælum með henni. Hér má finna trailerinn.

Eftir örfáar mínútur leggjum við af stað ásamt Völu og Helen í flakk um LA. Stefnan er tekin á kaffihús í Silver Lake, e.t.v. búðaráp á Melrose Avenue og Rodeo Drive, stutt stopp niður á strönd og svo loks kvöldmatur hjá Alan og Allison í Westwood. Mér líður eins og túrista.

-Hannes

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Skein og froskalappir

Eftir að hafa horft á sólina í gegnum gluggann í gær og enn verið undrandi á þessari frelsun minni fórum ég og Hannes í leiðangur.
Í leiðangrinum keyptum við ekki frosnar kjúklingalappir en fylltum innkaupakerruna þess í stað af framandi kryddum, grískum fetaosti og ársbyrgðum af ólífuolíu. En þetta var bara byrjunin. Já því hápunktur leiðangursins (a.m.k. fyrir mig) var ferð í garnabúðina Skein. Skein lætur lítið yfir sér en innihaldið er þeim mun betra. Aldrei hef ég farið í garnabúð á ævinni og orðið fyrir jafnmiklum hughrifum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í búðinni er eingöngu hægt að finna garn sem glitrar meir en demanturinn minn. Garnið kemur frá framandi stöðum eins og Japan, Alsír, Saudi-Arabíu og Kína og er hannað af sérstökum garnhönnuðum. Já þetta væri búðin sem Sara Jessica Parker og Michael Jackson myndu versla við ef þau hefðu áhuga á að prjóna.
Vegna hughrifa minna gat ég ekkert gert í verslunni nema haft opin augun og því verður Skein að bíða eftir því að ég verði dyggur viðskiptavinur þeirra.

Annars er það að frétta að í kvöld erum við hjónakornin að fara á Sigurrósartónleika.
Látum vita hvernig þeir hljómuðu-fylgist með fréttunum.

-Gerdi

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Eins og í bandarískri bíómynd...

Stundum líður mér eins og ég sé staddur í Hollywood mynd.

Í morgun þegar við vorum að keyra Angel út á flugvöll og komin nokkuð nálægt áfangastað brunuðu þrír bílar framhjá okkur með miklum látum. Einn þeirra var lögreglubíll og ökumaðurinn lögreglumaður með Ray Ban speglagleraugu, yfirvaraskegg og vatnsgreitt hár. Hinir tveir bílarnir voru trukkar merktir "Bomb Squad". Okkur leist ekki alltof vel á blikuna og bjuggumst alveg eins við því að óreiða ríkti á flugvellinum vegna einhverrar sprengjuhótunar eða álíka. Sú varð sem betur fer ekki raunin og ætti ég að vita betur eftir að hafa búið í rúm tvo ár við götu þar sem að slökkviliðsbíll ekur framhjá á hverjum degi með sírenurnar vælandi eins og kominn væri heimsendir. Hér er alltaf verið að hrópa "úlfur úlfur" og kannski er slíkt því miður nauðsynlegt. Sumir Bandaríkjamenn eru orðnir svo dofnir af auglýsingum, sjónvarpsglápi og öðru áreiti að sífellt þarf að grípa til róttækari aðgerða til þess að fá athygli þeirra.

Herbergisfélagi minn fyrstu vikuna hér í Pasadena var svo djúpt sokkinn í sjónvarpsfyllerí að hann gat ekki sofnað nema fyrir framan imbann. Á hverri nóttu vaknaði ég upp við háværar auglýsingar og þurfti að fara fram í stofu til þess að slökkva á þessum fjanda. Leit á sófann og þar svaf þessi drengur frá Texas værum svefni. Ég spurði hann síðar af hverju hann svæfi alltaf með sjónvarpið kveikt og var hann með svarið á reiðum höndum. Allt sitt líf hafði hann gert þetta. Móðir hans hafði svæft hann fyrir framan sjónvarpið frá því að hann var ungabarn á brjósti og þegar hann tók að stálpast hélt hann áfram að liggja með móður sinni fyrir framan skjáinn á kvöldin þar til að hann sofnaði. Nú var hann orðinn rúmlega 25 ára og sagðist liggja andvaka í svitakófi nema hann hefði þetta stöðuga áreiti frá sjónvarpinu. Í dag vinnur hann við auglýsingar og markaðssetningu hjá einhverju fyrirtæki í Suður-Kalíforníu og á því að þakka yndislegum kvöldstundum með móður sinni í Texas.

-Hannes

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Stríðið við Íslendinginn

Hef sigrast á mínum innri Íslending hér í LA. Þessi sigur felst í því að í hvert sinn sem ég sé sólina þarf ég ekki að fara í stutt pils og hlýrabol og hlaupa um stræti Pasadena heldur get ég horft á hana gegnum gluggann og hugsað með mér, ég þarfnast hennar ekki í dag, hún verður þarna aftur á morgun. Þessi sólarsigur er mjög mikilvægur hér í ríki sólarinnar. Þetta er nokkurs konar trúarleg frelsun frá ofríki hennar. Þess í stað sit ég nú inni (reyndar í pilsi og hlýrabol) og get einbeitt mér að málum eins og þeim sem maður þarf að sinna þegar maður er í námi.
Sigur þessi er mjög svo sætur.

-Gerdi

mánudagur, ágúst 08, 2005

Fyrstu bollarnir

Vorum rétt áðan að prufukeyra vélina og gekk barasta ágætlega. Allaveganna tókst okkur að laga espressó með crema sem bragðaðist þokkalega. Stefnan er tekin á að laga hinn fullkomna espressóbolla með réttri fyllingu og er okkar næsta skref að rölta yfir í kaffibúð Péturs á horni Lake Avenue og California Boulevard til að ná okkur í nýmalað kaffi svo æfingar geti haldið áfram. Munum líklegast setja inn einhverjar myndir af þessum æfingum okkar innan tíðar en þangað til getið þið kíkt á heimasíðu Gaggia til þess að virða þessa elsku fyrir ykkur (módelið heitir Classic, að sjálfsögðu): www.gaggia.it

-Hannes

Gaggia

Fengum óvæntan gest í dag sem hefur ákveðið að taka sér bólfestu í eldhúsinu. Óvænti gesturinn kemur frá Ítalíu og ber nafnið Gaggia Classic. Gaggia er espressó vél af kynþætti burstað stáls. Við höfum hoppað hæð okkar af gleði í allan dag vegna þessa nýja fjölskyldumeðlims sem mun án efa fylgja okkur um ókomna framtíð. Enn sem komið er höfum við ekki lagað kaffi í henni en ástæðan er fyrst og fremst sú að við höfum verið of upptekin við að horfa á hana, klappa og strjúka. Erum komin með háleitar hugmyndir um kaffiboð framtíðarinnar og hygg að við fjárfestum í fleiri ego bollum innan tíðar svo að fleiri gestir geti notið hennar með okkur.
Já það er gott að eignast góða espressóvél. Bíst við að við munum þó á næstu dögum vera dugleg að búa til klaka því í hitanum sem heltekur okkur þessa dagana er þörf á ískaffi. Það ætti þó ekki að koma að sök. Þeir sem eiga heiðurinn af þessum nýja fjölskyldumeðlimi eru vinir Hannesar úr HÍ og færðu þeir okkur hana Gaggiu í brúðkaupsgjöf í gegnum Amazon. Þeir eiga þakkir skilið fyrir þetta. Vona að þið fáið að njóta Gaggiu með okkur innan tíðar. Heitt/kalt og gott kaffi er ávallt í boði í íbúð okkar við Catalina Avenue hvenær sem er.

Gerdi

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Töskurnar komnar í hús

Mikið vorum við Gerður glöð í morgun þegar stúlka hjá Sun Country Airlines hringdi og tilkynnti okkur að töskurnar væru komnar á flugvöllinn í Los Angeles. Nú eru þær komnar í hús og við búin að máta sparifötin okkar sem við ætlum að klæðast við brúðkaup Stephanes og Mörtu seinna í dag. Ætlum að halda upp á þetta með því að skjótast út í Wild Oats til að kaupa okkur engiferöl og svala þorsta okkar í þessum rúmlega 30 stiga hita. Seinna í dag munum við svala þorsta okkur með kampavíni í brúðkaupsveislunni (ef ég þekki Parísarbúann hann Stephane rétt þá verður hvergi til sparað). Ætla að bjóða henni Gerði minni upp í dans í kvöld þegar salsahljómsveitin treður upp og ég lofa að við munum sýna þessari LA salsaelítu hvernig á að dilla sér við bossanova og rúmbu.

-Hannes

laugardagur, ágúst 06, 2005

Komin aftur til LA

"Djöfull er heitt í íbúðinni" hugsaði ég þegar við opnuðum hurðina á íbúðinni okkar sem er í íbúðakomplexi sem svipar mjög til heimilis Miles úr snilldarmyndinni Sideways. Hljóp inn í herbergi og náði í viftuna sem Vala og Ólíver létu okkur fá, opnaði gluggana og setti allt á fullt. Klukkan var 1 eftir miðnætti og við vorum nánast tómhent því engin af töskunum okkar komst til skila í fluginu frá Minneapolis til LA. Hringdi strax í pabba reddara til þess að vinna í málunum á íslensku vígstöðvunum því hér í BNA var náttúrlega allt lokað. Hringdi nokkur símtöl áðan og bíð núna við símann eftir að Helen hjá flugfélaginu sem við versluðum við láti okkur vita hvort töskurnar séu fundnar. Þetta kemur sér frekar illa því á morgun erum við á leið í brúðkaup til Stephanes og Mörtu og í farangrinum eru sparifötin okkar og spariskór auk hluta af brúðkaupsgjöfinni okkar til þeirra. Konan í afgreiðslunni í gær blikkaði til Gerðar þegar við sögðum henni frá þessu og benti á að þetta væri náttúrulega tilvalin afsökun til þess að versla sér ný föt. Verst að það er eiginlega of heitt úti til þess að spássera um göturnar í fataleit. Það bjargar okkur að við keyptum lagerbjór í Trader Joe's í morgun sem bíður þess að svala þorsta okkar að loknum kaupstaðarleiðangri.

-Hannes